Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

21

Lyfjamisnotkun og lýðheilsumál

06.04.2018 08:56

Í gær, þann 5. apríl, fór fram málþing um forvarnir í lyfjamálum á vegum Háskólans í Reykjavík og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í höfuðstöðvum HR. Birgir Sverrisson, verkefnastjóri Lyfjaeftirlits ÍSÍ, opnaði málþingið og talaði um mikilvægi sjálfstæðs Lyfjaeftirlits. Tómas Þór Ágústsson, innkirtlasérfræðingur á Landspítalanum, hélt erindi um anabólíska stera og aukaverkanir þeirra ásamt því að sýna tölfræði sem unnin er úr gögnum sem safnað var hérlendis varðandi það.

Fredrik Lauritzen, forstöðumaður forvarna- og lýðheilsumála hjá Anti-Doping Norway, fjallaði um hvatana á bakvið lyfjamisnotkun í líkamsrækt og þá áhættu sem fylgir því að neyta ólöglega lyfja. Hann ítrekaði mikilvægi þess að stuðla að lyfjalausu og heilbrigðu umhverfi í líkamsrækt fyrir lýðheilsu fólksins í landinu. Noregur stendur framarlega þegar kemur að forvörnum gagnvart notkun ólöglegra lyfja í tengslum við líkamsrækt og sýndi Fredrik dæmi um forvarnaráætlanir frá Noregi.

Lyfjamisnotkun einskorðast ekki við afreksíþróttafólk og hafa ýmsir aðilar utan skipulagðra íþrótta áhyggjur af aukinni notkun ólöglegra árangursbætandi efna og frekari þörf á fræðslu og forvörnum. Þann 4. apríl fór fram umræðufundur milli Lyfjaeftirlits ÍSÍ og nokkurra fulltrúa líkamræktarstöðva á Íslandi um að leggja meiri áherslu á forvarnir og fræðslu í lyfjamálum utan skipulagðs íþróttastarfs, þ.e. innan líkamræktar.

Vefsíða Lyfjaeftirlits ÍSÍ er lyfjaeftirlit.is.

Myndir með frétt

Til baka