Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

13

Einar Vilhjálmsson

Einar Vilhjálmsson frjálsíþróttamaður var útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ á Íþróttamanni ársins 29. desember 2021,

Einar er fæddur 1. júní árið 1960. Íslandsmet hans í spjótkasti er 86,80 m, sett 30. ágúst 1992.

Hann setti bandarískt háskólameistaramótsmet í spjótkasti árið 1983 í Houston í Texas, með kasti upp á 86,80 metra, og bandarískt háskólamet með kasti upp á 92,42 á Teras Relays árið 1984. Einar setti Norðurlandamet, 82,78 m, á Landsmóti UMFÍ á Húsavík 1987 og og Evrópumeistaramótsmet, 85,48 m, árið 1990 í Split í þáverandi Júgóslavíu. Einar vann landskeppni Norðurlandanna og Bandaríkjanna árið 1983 og lagði þar heimsmethafann Tom Petranoff í annað sinn. Hann var valinn í úrvalslið Evrópu til keppni í heimsbikarkeppni árið 1985 og leiddi fyrstu Grand Prix stigakeppni Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins (IAAF) sama ár frá fyrsta móti í Kaliforníu í maí og allt til ágústmánaðar og eru þá allar frjálsíþróttagreinar meðtaldar. 

Einar hlaut gullverðlaun á Heimsleikunum í Helsinki árið 1988. Hann vann til 10 gullverðlauna á Grand Prix stórmótaröðum IAAF og fjölda silfur og bronsverðlauna á árinum 1985, 1987, 1989 og 1991, Keppnisferill Einars spannar um 220 mót í um 22 löndum og hafnaði hann á verðlaunapalli á um 200 þeirra. Einar komst fyrst á heimslistann yfir bestu spjótkastara heims árið 1983 og síðast árið 1992. Hann varð sjötti á Ólympíuleikunum í Los Angeles 1984 og kom Íslandi á blað í frjálsíþróttum með eitt stig. Á keppnisferli Einars var spjótum breytt þrisvar sinnum. Einar var einn þriggja spjótkastara í heiminum sem náði að komast á heimslistann með öllum spjótunum.

Einar var kjörinn Íþróttamaður ársins af Samtökum íþróttafréttamanna í þrígang, árin 1983,1985 og 1988.

Þess má geta að faðir Einars, Vilhjálmur Einarsson, var útnefndur fyrstur allra í Heiðurshöll ÍSÍ, 28. janúar 2012 á 100 ára afmæli ÍSÍ.

Það er ÍSÍ mikill heiður að útnefna Einar Vilhjálmsson í Heiðurshöll ÍSÍ.

Myndasíða ÍSÍ - Einar Vilhjálmsson.