Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22

Heimsráðstefna WADA

23.03.2017 14:19

Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunin (WADA) hélt sína árlegu heimsráðstefnu í Lausanne dagana 13.-15. mars 2017. Meginþema ráðstefnunnar voru rödd íþróttafólksins í lyfjamálum, uppfyllingarskilyrði eftirlits og regluverk um ábendingar og hvatning til ábendinga (whistleblowing).

Ráðstefnan var haldin í þrettánda skipti og var hún sú langstærsta hingað til með yfir 740 fulltrúa víðsvegar að úr heiminum frá lyfjaeftirliti, alþjóðasérsamböndum, viðburðarhöldurum, Ólympíusamböndum, ríkisstjórnum og rannsóknarstofum. Birgir Sverrisson starfsmaður Lyfjaeftirlits ÍSÍ sat ráðstefnuna.

Áhersla er lögð á að lyfjaeftirlit uppfylli skilyrði sem Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunin setur til þess að halda réttindum sínum til lyfjaprófana og meðferðar niðurstaða. Einnig gildir það um rannsóknarstofur. Eftirlit af hálfu WADA með að þessum skilyrðum sé framfylgt verður eflt og einnig skilgreint sérstaklega hvenær óuppfyllt skilyrði varða refsingu á hendur einstaka löndum. Tilgangur þeirra breytinga er að efla trúverðugleika lyfjaeftirlits í augum íþróttafólks.

Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunin hefur þróað hugbúnað sem gerir íþróttfólki og öðrum kleift að stíga fram og segja frá misferli eða hverju því sem getur grafið undan baráttunni gegn lyfjamisnotkun. Hugbúnaðurinn, sem heitir „Speak Up!“, felur í sér þann möguleika að tryggja trúnað og rétt þeirra sem stíga fram. Allir þeir sem verða vitni að, vita um eða hafa rökstuddan grun um að svindl hafi átt sér stað eru hvattir til þess að stíga fram og segja frá. Vefsíðu Speak Up! má sjá hér.

Samhliða ráðstefnu WADA fór fram málstofa iNADO (Institute of National Anti Doping Organizations) sem Lyfjaeftirlit ÍSÍ er aðili að. McLaren skýrslan, sem skýrði frá lyfjamisferlinu í Rússlandi, upplýsingaöflun, rannsóknaraðferðir og öruggar leiðir til að segja frá (whistleblowing) voru meðal umræðuefna á málstofunni. Lyfjaeftirlit ÍSÍ hyggst á næstu misserum taka í notkun hugbúnað sem gerir fólki kleift að veita upplýsingar í gegnum vefsíðu án þess að koma fram undir nafni.

Vefsíða Lyfjaeftirlits ÍSÍ er www.lyfjaeftirlit.is

Til baka