Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

21

Tölfræði WADA 2015

30.11.2016 10:00

Nýlega gaf Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunin (WADA) út skýrslu sem inniheldur tölfræði yfir allar lyfjaprófanir framkvæmdar samkvæmt WADA stöðlum á heimsvísu árið 2015. Þetta er í fyrsta skipti sem út kemur skýrsla um lyfjaprófanir á heimsvísu síðan nýju alþjóðalyfjareglurnar komu út í byrjun árs 2015.

Fleiri lyfjapróf voru tekin í frjálsíþróttum, hjólreiðum og knattspyrnu á árinu 2015 heldur en í öllum öðrum íþróttagreinum á Sumarólympíuleikum til samans. Í knattspyrnu voru tekin alls 32.362 lyfjapróf, 30.308 í frjálsíþróttum og 22.652 í hjólreiðum. Fæst lyfjapróf voru tekin í hestaíþróttum og golfi, eða 419 og 417.

Í skýrslunni kemur fram að 1,25% fleiri lyfjapróf voru tekin á heimsvísu árið 2015 í samanburði við árið 2014. 1,1% aukning var á fjölda afbrigðilegra niðurstaðna. Af þeim íþróttagreinum sem keppt er í á Sumarólympíuleikum fundust flestar afbrigðilegar niðurstöður í lyftingum eða um 2,7%. Næst á eftir var golf með 2,4%. 

Af þeim íþróttagreinum sem keppt er í á Vetrarólympíuleikunum voru flest lyfjapróf tekin af Alþjóðaskíðasambandinu (International Ski Federation), eða 1.583 lyfjapróf.

Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunin fann bönnuð efni í 3.809 sýnum af þeim 303.369 prófum sem tekin voru á heimsvísu árið 2015. Til samanburðar fundust bönnuð efni í 3.153 sýnum af 283.304 sem tekin voru árið 2014. Í helmingnum af þeim sýnum sem í fundust bönnuð efni voru anabólískir sterar.

Lyfjaprófanir eru mikilvægt tól hjá lyfjaeftirlitsstofnunum til að stuðla að sanngjarnri keppni og hreinum íþróttum.

Hér má sjá heildarfjölda sýna sem tekin voru í íþróttagreinum sem keppt er í á Sumarólympíuleikum og Vetrarólympíuleikum ásamt heildarfjölda og hlutfalli af sýnum með bönnuðum efnum.

Tafla er fengin af síðunni www.insidethegames.biz

Til baka