Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

29

Keppendur í Ólympíuhópi ÍSÍ standa í ströngu

12.04.2024

 

Keppendur er skipa Ólympíuhóp ÍSÍ hafa verið á fleygiferð á ýmsum vígstöðvum undanfarna mánuði og vikur og keppast að því að æfa vel og keppa á mótum sem geta gefið þeim möguleika á því að vinna sér inn þátttökurétt fyrir Ólympíuleikana í París í sumar.  Mismunandi leiðir eru fyrir keppendur að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum og því getur staða á heimslista í vor líka gert gæfumun og því er mikilvægt fyrir þau að ná góðum árangri á mótunum þó lágmörkin náist ekki.  

Um síðustu helgi var mikið að gera hjá hluta hópsins.  Anton Sveinn McKee og Snæfríður Sól Jórunnardóttir, afreksfólk okkar í sundi, kepptu á Stokkhólm Open og stóðu sig með prýði.  Anton synti til úrslita í bæði 100m bringusundi, þar sem hann endaði í 4. sæti, og 200m bringusundi, þar sem hann  endaði í 3. sæti eftir æsispennandi keppni. Snæfríður Sól í varð í 9. sæti í 50m og 100m skriðsundi og vann B úrslitin í báðum greinum.  Um helgina fer svo fram Íslands- og unglingameistaramótið í sundi í Laugardalslaug þar sem þau tvö munu taka þátt ásamt öðru glæsilegu sundfólki,  Í kvöld, föstudaginn 13. apríl, byrjaði Anton vel með því að slá fimm ára gamalt Íslandsmet í 100m bringusundi þegar hann synti á1:00.21.
Anton Sveinn hefur nú þegar tryggt sig inn á Ólympíuleikana í París í sumar en Snæfríður mun gera atlögu að Ólympíulágmarkinu en hún hefur verið mjög nálægt því á síðustu mótum. 

Eygló Fanndal Sturludóttir, afrekskona í lyftingum er nýkomin heim frá Heimsbikarmóti í Taílandi þar sem hún stóð sig frábærlega og bætti eigin Íslands- og Norðurlandamet í snörun og Íslandsmetið í jafnhendingu setti svo Norðurlandamet í samanlögðu með 236 kíló. 

Thelma Aðalsteinsdóttir og Valgarð Reinhardsson, afreksfólkið okkar í fimleikum, stóð sig einnig frábærlega á Norðurlandameistaramótinu í áhaldafimleikum í Ósló um síðustu helgi en fimleikalandsliðið náði einum besta árangri frá upphafi.  Bæði Thelma og Valgarð urðu Norðurlandameistarar í einstaklingsflokki auk þess sem kvennalandsliðið nældi sér í gullverðlaun og karlalandsliðið í brons.

Guðlaug Edda Hannesdóttir, afrekskona í þríþraut, hefur verið að standa sig vel í sínum keppnum en hún keppti nýverið í Suður-Afríku og færðist hratt upp heimslistann þegar hún endaði í 8. sæti á því móti.  Það skilaði henni upp um 49 sæti og er hún núna í 225. sæti. Guðlaug Edda hefur komið sterk til baka eftir erfið meiðsli.  Hennar næsta mót verður í lok apríl í World Series keppninni.

Framundan eru einnig mót hjá Ernu Sóleyju Gunnarsdóttur, kúluvarpi, í Oklahoma þann 14. apríl, Guðna Val Guðnasyni, kringlukasti, Oklahoma 12. og 14. apríl og Ingibjörgu Erlu Grétarsdóttur, taekwondo, í Serbian Open 12. -14. apríl. Hákon Þór Svavarsson, haglabyssuskotfimi, tekur svo þátt í Heimsbikarmóti í Quatar 22. -30. apríl og Hilmar Örn Jónsson, sleggjukasti, á móti 21. apríl í Kenía. 

Inná heimasíðu ÍSÍ má finna upplýsingar um alla keppendur og næstu mót. 

ÍSÍ óskar keppendum góðs gengis í mótunum sem framundan er og hvetur alla til að fylgjast vel með þeim á sinni vegferð í átt að Ólympíuleikunum í París í sumar!

 

Myndir með frétt