Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

20

Íslenskt afreksíþróttafólk tekur þátt í Ólympíudeginum

22.06.2020

Á morgun, þann 23. júní, er Alþjóðlegi Ólympíudagurinn haldinn hátíðlegur um allan heim. Íslenskt afreksíþróttafólk mun sameinast undir merkjum Ólympíudagsins á morgun og #StayStrong herferðar Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC) og birta myndir og myndbönd frá sínum æfingum. ÍSÍ mun síðan deila því sem afreksíþróttafólkið setur inn á Instagram síðu ÍSÍ.

Instagram síða ÍSÍ @isiiceland 

Ólympíudagurinn er haldinn í tilefni af stofnun Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC) 23. júní árið 1894. Þá má segja að Ólympíuleikar til forna hafi verið endurvaktir og færðir til nútímans. Markmiðið með deginum er að hvetja fólk til að koma saman, hreyfa sig og hafa gaman, en dagurinn er í raun ætlaður öllum óháð íþróttalegri getu. Meginþema í tengslum við daginn eru þrjú: Hreyfa, læra og uppgötva. Á deginum er kjörið að spreyta sig á ýmiss konar íþróttum og þrautum, en ekki einungis íþróttum sem keppt er í á Ólympíuleikunum. Ólympíudagurinn er einnig kjörinn vettvangur til að kynna gildi Ólympíuhreyfingarinnar sem eru; vinátta, virðing og ávallt að gera sitt besta.

ÍSÍ hvetur alla til þess að fylgjast með íslensku afreksíþróttafólki og afreksíþróttafólki um heim allan á Instagram á morgun. ÍSÍ hvetur einnig sérsambönd, íþróttafélög og frístunda- og tómstundanámskeið til þess að taka þátt í Ólympíudeginum, allt frá því að vera með einn dag sem Ólympíudag eða heila viku sem Ólympíuviku. Tímasetningin skiptir ekki öllu máli, heldur einungis að vera með. Upplýsingar og fræðsluefni er að finna á vefsíðu ÍSÍ undir „Ólympíudagurinn“ og vefsíðu IOC hér.

Frekari upplýsingar veita: Þórarinn Alvar Þórarinsson, verkefnastjóri ÍSÍ (alvar@isi.is) og Ragnhildur Skúladóttir, sviðsstjóri Þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ (ragnhildur@isi.is).