Héraðsþing HSK haldið í Hveragerði í 19. sinn
Héraðsþing HSK var haldið á Hótel Örk sl. laugardag. Rúmlega 100 manns mættu. Á þinginu var lögð fram vegleg ársskýrsla um störf sambandsins á liðnu ári, ásamt því að í skýrslunni eru stutt yfirlit um störf aðildarfélaga sambandsins.
50 ár eru síðan ársskýrsla HSK kom fyrst út á prenti. Það fór því vel á því að í ár var ársskýrslan í fyrsta sinn öll prentuð í lit. Nálgast má ársskýrsluna hér.
Breytingar urðu á stjórn sambandsins. Rut Stefánsdóttir gaf ekki kost á sér áfram og var Baldur Gauti Tryggvason kosinn meðstjórnandi, en hann átti sæti í varastjórn. Gísli Örn Brynjarsson Umf. Biskupstungna var kosinn nýr í varastjórn.
Stjórn sambandsins sem var kosin á þinginu skipa þau, Guðríður Aadnegard formaður, Guðmundur Jónasson gjaldkeri, Helgi S. Haraldsson varaformaður, Anný Ingimarsdóttir ritari og Baldur Gauti Tryggvason meðstjórnandi. Í varastjórn eru Gestur Einarsson, Olga Bjarnadóttir og Gísli Örn Brynjarsson.
Jón Jónsson fyrrvarandi formaður HSK var sæmdur gullmerki HSK fyrir sín störf fyrir sambandið í áratugi. Starfsmerki UMFÍ hlutu þau María Rósa Einarsdóttir, Dímon, Olga Bjarnadóttir Selfossi og Valdimar Hafsteinsson Hamri.
Góðar umræður voru í nefndum þingsins og um 20 tillögur voru samþykktar. Íþróttafólk í 21 íþróttagrein sem stundaðar eru innan sambandsins var heiðrað og úr þeirra hópi var Margrét Lúðvíksdóttir, fimleikakona úr Umf. Selfoss, valin íþróttamaður HSK 2016.
Ýmis sérverðlaun voru veitt á þinginu. Íþróttafélagið Dímon var stigahæsta félagið, Golfklúbbur Selfoss fékk unglingabikar HSK og frjálsíþróttadeild Umf. Selfoss hlaut foreldrastarfsbikar HSK. Þá var Kjartan Lárusson valinn öðlingur ársins.
Fleiri myndir frá þinginu má sjá neðst á vefsíðu HSK.