18,3 milljónum króna úthlutað vegna kostnaðarþátttöku ungmenna í landsliðsstarfi

Í nóvember undirrituðu þáverandi mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, og þáverandi forseti ÍSÍ, Lárus Blöndal, undir samning um stóraukningu fjármagns frá ríkinu til afreksstarfs árið 2025. Hækkunin nam 637 milljónum króna.
Viðbótarfjármagnið byggði ekki síst á vinnu starfshóps ráðuneytisins, sem leiddur var af Vésteini Hafsteinssyni, þáverandi afreksstjóra ÍSÍ og nú ráðgjafa í Afreksmiðstöð Íslands. Starfshópurinn skilaði af sér skýrslu í lok apríl í fyrra ári og í henni voru tillögur um hvernig ætti að bæta verulega umhverfi afreksíþróttafólks á Íslandi sem svipaði til þess að við þekkjum í nágrannalöndum okkar. Skýrslu starfshópsins má finna hér.
Af þessum 637 milljónum króna hefur um 300 milljónum þegar verið úthlutað til sérsambanda ÍSÍ en að auki mun fjármagnið fara í launasjóð afreksíþróttafólks, kostnaðarþátttöku landsliðsverkefna ungmenna og Afreksmiðstöð ÍSÍ.
16 sérsambönd ÍSÍ hlutu styrk júní fyrir landsliðsverkefni ungmenna á þeirra vegum á fyrsta ársþriðjungi og samanlagður fjöldi ungmenna sem hlutu styrk er 285. Fjöldi styrkhæfra móta á fyrsta ársþriðjungi var 71 og nema heildarstyrkir á fyrsta ársþriðjungi 18,3 milljónum króna. Er styrkurinn greiddur til sérsambandanna og þau skuldajafna á móti kostnaði ungmenna, hafi þau ekki greitt sinn kostnaðarhluta eða endurgreiða til ungmenna hafi þau þegar greitt. Úthlutunin byggir á úthlutunarreglum og viðmiðum sem samþykkt voru af framkvæmdastjórn ÍSÍ og útreikningurinn byggir á upplýsingum úr umsóknum sérsambanda ÍSÍ í Afrekssjóð ÍSÍ.
Meginmarkmið styrkveitinganna er að styðja fjárhagslega við ungmenni sem taka þátt í landsliðsstarfi á vegum sérsambanda ÍSÍ og þurfa að greiða kostnað vegna þátttökunnar að fullu eða að hluta. Þá er markmiðið einnig að jafna möguleika ungmenna á þátttöku í landsliðsstarfi sérsambanda ÍSÍ.
Gert er ráð fyrir að heildarstyrkir vegna kostnaðarþátttöku ungmenna í landsliðsstarfi verði um 100 milljónir króna árið 2025.