Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

11

Tímamótasamningur um aukin fjárframlög undirritaður á föstudag

25.11.2024

 

Rétt áður en Formannafundur ÍSÍ var settur föstudaginn 22. nóvember sl., var undirritaður samningur um fjárfamlög ríkisins til Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands fyrir árið 2025.  Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra og Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ undirrituðu samninginn.

Um er að ræða tímamótasamning þar sem fjárframlög hækka verulega frá síðasta ári, m.a. vegna afreksstarfs, eða um 637 milljónir króna. Heildarframlög ríkisins eru nú rúmlega 1,4 milljarður króna og fara þau framlög til verkefna eins og Afrekssjóðs ÍSÍ, rekstrarstuðnings til ÍSÍ og sérsambanda, aukins framlags til afreksíþróttastarfs og ferðasjóðs íþróttafélaga. Aukning fjármagns byggir ekki síst á vinnu starfshóps ráðuneytisins, sem leiddur hefur verið áfram af Vésteini Hafsteinssyni afreksstjóra ÍSÍ. Starfshópurinn skilaði af sér skýrslu í lok apríl á þessu ári og í henni eru tillögur um þá þætti sem þarf að ráðast í til að bæra verulega umhverfi afreksíþróttafólks á Íslandi þannig að það færist nær því sem er í nágrannalöndum Íslands. Skýrslu starfshópsins má finna hér.

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ:
„Það er gríðarlega mikilvægt fyrir íslenska íþróttahreyfingu að fá stuðning sem þennan frá stjórnvöldum og í því felst einnig viðurkenning á mikilvægi íþrótta í okkar samfélagi. Starfsemi sérsambanda ÍSÍ hefur verið aðþrengd um langan tíma vegna fjárskorts og afreksstarfið hefur tekið mikið í. Við höfðum verulegar áhyggjur af því að þrotlaus vinna síðustu ára, við að tryggja að umgjörð afreksíþrótta væri ekki síðri hjá okkur en hjá þeim ríkjum sem við berum okkur saman við, væri fyrir bí. Það var því afskaplega dýrmætt að fá samþykkta þessa aukningu upp á 637 milljónir kr., ekki síst í ljósi þess að fjárlög voru samþykkt í skugga stjórnarslita.

Við eru virkilega þakklát fyrir þennan mikilvæga stuðning, sem mun gera okkur kleift að halda áfram því verkefni að bæta umgjörð afreksíþrótta. Næsta ár verður viðburðarríkt hjá ÍSÍ, sérsamböndum og íslensku afreksíþróttafólki og nú eru framtíðarhorfur afreksíþrótta á Íslandi miklu bjartari."

Myndir/Arnaldur Halldórsson. Frá undirritun samningsins.

Myndir með frétt