Reinharð endurkjörinn formaður á ársþingi KAÍ

38. Karateþing fór fram sunnudaginn 2. mars í Íþróttamiðstöðinni Laugardal.
36 þingfulltrúar frá 10 karatefélögum og -deildum auk stjórnarmanna sóttu þingið.
Þingforseti var Valdimar Leó Friðriksson meðstjórnandi í framkvæmdastjórn ÍSÍ og þingritari var Sigþór Samúelsson.
Karatesambandið átti 40 ára afmæli 28. febrúar síðastliðinn og í tilefni af því ákvað stjórn sambandsins að heiðra nokkra félaga fyrir störf þeirra fyrir Karatesambandið og við útbreiðslu á íþróttinni með Gullmerki KAÍ.
Þau eru Birkir Jónsson, Gunnlaugur Sigurðsson, María Helga Guðmundsdóttir og Wilhelm Cornelius Verheul.
Að loknum hefðbundnum þingstörfum varð nokkur umræða um mótahald, sjálfboðaliða og hvernig hægt væri að ná til iðkenda og forráðamanna þeirra til að auka nýliðun í íþróttinni.
Reinharð Reinharðsson var endurkjörinn formaður sambandsins.
Þrír nýir stjórnarmenn komu í aðalstjórn sambandsins, þau Gaukur Garðarsson, Gunnlaugur Sigurðsson og Ronja Halldórsdóttir.
Tveir nýir voru kosnir í varastjórn, þau Anna María Þórðardóttir og Elías Guðni Guðnason.