Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

25.10.2024 - 26.10.2024

Landsþing LH 2024

Ársþing Landssambands hestamannafélaga verður...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
21.11.2024 - 21.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
13

Paralympics lokið. Róbert Ísak og Sonja fánaberar

09.09.2024

 

Paralympics lauk formlega í gær, sunnudaginn 8. september, en íslensku keppendurnar fimm höfðu þó lokið keppni áður. Lokahátíðin var stórfengleg og mikið um dýrðir á Stade du France, leikvangnum.

Róbert Ísak Jónsson, sundmaður, hóf keppni 29. ágúst en hann tók þátt í 100m flugsundi. Hann stóð sig frábærlega  og synti inn í úrslitin á nýju Íslandsmeti. Í úrslitunum gerði hann sér svo lítið fyrir og bætti Íslandsmetið þegar hann synti á 57,92 sek og endaði í sjötta sæti.
Þann 31. ágúst keppti Ingeborg Eide Garðarsdóttir í kúluvarpi. Hún hafnaði í 9. sæti er hún kastaði lengst 9,38m en náði því miður ekki inn í úrslit að þessu sinni.
Már Gunnarsson, sundmaður, og Thelma Björg Björnssdóttir, sundkona, kepptu bæði þann 1. september. Már Gunnarsson hóf leik en hann keppti í 100m baksundi og komst í úrslit. Í úrslitunum stóð hann sig frábærlega þar sem hann endaði í sjöunda sæti á nýju Íslandsmeti. Tíminn hans var 1:10,21 mín. Thelma Björg keppti í 100m bringusundi og komst einnig í úrslit. Í úrslitunum kom hún sjöunda í mark á tímanum 1:58,62 mín.
Síðust til að keppa fyrir hönd Íslands var Sonja Sigurðardóttir. Hún keppti bæði í 50m baksundi og 100m skriðsundi. Hún hóf keppni 2. september er hún keppti í 50m baksundi og kom áttunda í mark og tryggði sig þar með inn í úrslit. Hún gerði sér svo lítið fyrir og kom sjöunda í mark á nýju Íslandsmeti, á tímanum 1:07,46. Þann 3. september keppti hún svo í 100m skriðsundi og kom tólfta í mark en náði ekki inn í átta manna úrslit og lauk þar með þátttöku á leikunum.

Stærri myndin er af Róbert Ísaki Jónssyni, sundmanni, og Sonju Sigurðardóttur, sundkonu, en þau voru fánaberar fyrir Íslands hönd á lokahátíð leikanna.

Minni myndin er af íslenska hópnum, efri röð til vinstri: Róbert Ísak Jónsson, Ingeborg Eide Garðarsdóttir og Már Gunnarsson. Neðri röð til vinstri: Sonja Sigurðardóttir og Thelma Björg Björnsdóttir. Mynd/ÍF

ÍSÍ óskar keppendum innilega til hamingju með frábæra frammistöðu og árangur á Paralympics. 

Myndir með frétt