Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

10.10.2024 - 10.10.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
25.10.2024 - 26.10.2024

Landsþing LH 2024

Ársþing Landssambands hestamannafélaga verður...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
21.11.2024 - 21.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
9

Íris Þórsdóttir fer á Ólympíuleikana í París

03.07.2024

 

Íris Þórsdóttir, tannlæknir og fjölskyldukona, er á leið á Ólympíuleikana í París. Hennar hlutverk verður þó öðruvísi en annarra í íslenska hópnum því Íris sótti um að vera sjálfboðaliði og var valin úr stórum hópi umsækjenda til að hjálpa til við leikana. Um 45.000 sjálfboðaliða þarf til að vinna við ýmis störf á Ólympíuleikunum en margar hendur þarf til þess að tryggja að allt gangi sem eðlilegast fyrir sig á svo stórum viðburði. Ólympíuleikarnir eru stærsti íþróttaviðburður heims og munu þeir laða að þúsundir áhorfenda víðs vegar að úr heiminum.
 
Það hefur verið gamall draumur hjá Írisi að fara á Ólympíuleikana en hún æfði lengi frjálsíþróttir og fylgist í dag vel með öllum íþróttum. Hún er í skýjunum yfir að hafa verið valin og fá að upplifa Ólympíuleikana af eigin raun. Íris talar góða frönsku og verður hennar hlutverk m.a. að túlka og þýða fyrir íslenska hópinn, aðstoða starfsfólk ÍSÍ og aðra í kringum íslenska liðið og reyna að gera upplifun íþróttafólksins sem allra besta. Hennar starfsstöð verður í Ólympíuþorpinu. 
 
Í lok mars fór Íris á ráðstefnu í París fyrir sjálfboðaliða sem var einskonar prufukeyrslu fyrir leikana. Þar hafi hennar undirbúningur hafist en á ráðstefnunni var verið að prófa ýmsa verkferla sem notast á við á leikunum, sýna sjálfboðaliðunum medalíurnar og Ólympíukyndilinn og kynna fatnaðinn sem sjálfboðaliðarnir munu klæðast, svo fátt eitt sé nefnt.
 
Íris mun vera í París í tólf daga af þeim sextán sem leikarnir standa yfir en setning leikanna
 fer fram föstudaginn 26. júlí og lokahátíðin sunnudaginn 11. ágúst. Íris er mjög spennt fyrir verkefninu og bæði stolt og ánægð að fá að taka þátt og vera hluti af þessu verkefni.

ÍSÍ óskar Írisi góðs gengis og skemmtunar á Ólympíuleikunum sem framundan eru.

 

Í dag eru 23 dagar þar til Ólympíuleikarnir í París hefjast!

Myndir/Úr einkasafn.

Myndir með frétt