Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

07.05.2024 - 07.05.2024

Ársþing HSV 2024

Ársþing Héraðssambands Vestfirðinga (HSV)...
30

Dagur sjálfboðaliðans - Er það Alveg sjálfsagt?

05.12.2023

 

Í dag er alþjóðlegur dagur sjálfboðaliðans um allan heim! Þessi dagur hefur verið haldinn frá árinu 1985 þegar Sameinuðu þjóðirnar ákváðu að helga 5. desember öllum sjálfboðaliðum! Árið 2022 var sett í gang kynningarátakið Alveg sjálfsagt, sem þá var vitundarvakning um mikilvægi sjálfboðaliðans en því miður hefur þróunin síðustu ár verið á þá leið að starf sjálfboðaliða hefur, oft á tíðum, þótt sjálfsagt!

Íþróttahreyfingin á Íslandi hefur, eins og svo mörg önnur starfsemi í landinu, verið borin uppi af sjálfboðaliðum en óhætt er að segja að án sjálfboðaliðanna væri íþróttahreyfingin ekki á þeim stað sem hún er í dag.  Stjórnir íþróttafélaga og -deilda, fjáraflanir yngri flokka starfs, skipulag barna- og unglingamóta, dómgæsla, miðasala á leiki og veitingasala á leikjum, aðstoð við umgjörð leikja, söfnun og uppsetning auglýsingaskilta og öryggisgæsla eru dæmi um hlutverk sem sjálfboðaliðar hafa tekið að sér og vinna ókeypis í sínum frítíma í þágu íþróttanna og sinna félaga.  Það er ómetanlegt að hafa traust og gott fólk í kringum sig sem stendur vaktina í blíðu og stríðu og aðstoðar við lítil sem stór verkefni, svo íþróttafélög og iðkendur þeirra geti dafnað og bætt starf sitt, dag frá degi.  

Sjálfboðaliðar eru oft ósýnilega aflið sem knýr íþróttastarfið áfram og því miður þá gleymist alltof oft að þakka þeim fyrir sitt óeigingjarna framlag.  Í dag er dagurinn þeirra og því tilvalið að þakka öllum fyrir þeirra ómetanlega framlag!  Takk, sjálfboðaliðar!

Í tilefni af degi sjálfboðaliðans munu ÍSÍ og UMFÍ bjóða sjálfboðaliðum íþróttahreyfingarinnar að koma í Íþróttamiðstöðina í Laugardal og halda upp á daginn.  Klukkan 15:00 verður stutt málþing þar sem þau þrjú, sem tilnefnd voru til Íþróttaeldhuga ársins 2022, Haraldur Ingólfsson (KA/Þór), Þóra Guðrún Gunnarsdóttir (ÍSS, Björninn, SR) og Friðrik Þór Óskarsson (FRÍ, ÍR) munu segja sína sögu úr sjálfboðastarfi fyrir íþróttahreyfinguna. Að dagskrá lokinni eða um kl.16 er öllum viðstöddum boðið í vöfflukaffi í boði Vilko og Mjólkursamsölunnar.

Vonandi mun íþróttahreyfingin áfram búa svo vel að geta leitað aðstoðar hjá sjálfboðaliðum svo hreyfingin megi halda áfram að dafna og eflast. Að lokum viljum við minna á kosningu á Íþróttaeldhuganum 2023!  Hjálpumst að við að beina kastljósinu að okkar frábæru sjálfboðaliðum og sendum inn tilnefningar. Smelltu hér til að senda tilnefningu!

ÍSÍ sendir öllum sjálfboðaliðum í íþróttahreyfingunni bestu kveðjur í tilefni dagsins og þakkar fyrir þeirra óeigingjörnu störf í þágu íþrótta í landinu!