Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
24

Álitsgerð um skaðabóta- og refsiábyrgð sjálfboðaliða

09.05.2023

 

Með hliðsjón af svokölluðu „hoppukastalamáli” á Akureyri og ákærum á sjálfboðaliða úr íþróttahreyfingunni í kjölfarið, þá óskaði forseti ÍSÍ eftir álitsgerð frá Viðari Má Matthíassyni fyrrverandi dómara við Hæstarétt og fyrrverandi prófessors við lagadeild Háskóla Íslands, um skaðabóta- og refsiábyrgð sjálfboðaliða sem starfa í þágu ÍSÍ og eininga innan þess.

Viðar Már hefur nú skilað af sér álitsgerðinni. Rétt er að það komi fram að Viðar Már vann álitsgerðina sem sjálfboðaliði og kann ÍSÍ honum bestu þakkir fyrir.

Draga má helstu niðurstöður í eftirfarandi punkta:

  • Að meginregla laga er sú að sjálfboðaliðar sem valda öðrum líkams- eða munatjóni í sjálfboðaliðastarfinu með skaðabótaskyldum hætti beri persónulega ábyrgð á því tjóni, eins og aðrir. Grundvöllur þeirrar ábyrgðar er sakareglan, það er að sjálfboðaliði hafi valdið tjóninu af ásetningi eða af gáleysi.  
  • Að sá sem sinnir sjálfboðaliðastarfi fyrir hreyfinguna getur að vissum skilyrðum uppfylltum einnig verið í sömu stöðu og starfsmaður (sjá skilyrði í greinargerðinni). Ef svo er, ber það íþróttafélag sem hann vinnur að sjálfboðaliðastörfum fyrir, einnig ábyrgð á tjóni sem hann kann að valda. Er það á grundvelli reglu um vinnuveitendaábyrgð. Þótt íþróttafélag gæti þannig orðið skaðabótaskylt, auk skaðabótaskyldu sjálfboðaliðans, vegna tjóns sem hann hefur valdið, þá leysir það ekki sjálfboðaliðann undan ábyrgð. Í greinargerðinni er bent á reglur 23. gr. skaðabótalaganna nr. 50/1993 sem gætu létt ábyrgð í heils eða að hluta af sjálfboðaliða ef sanngirnisrök mæltu sérstaklega með því.
  • Um refsiábyrgð sjálfboðaliða gilda sömu reglur og eiga við um aðra einstaklinga og hvorki staða manns sem sjálfboðaliði né heldur tilvist vátrygginga skipta nokkru um refsiábyrgðina.
  • Ekkert sérstakt þarf til að virkja ábyrgð þess sem telst sjálfboðaliði umfram það að tjóni hafi verið valdið eða refsiverður verknaður framinn.
  • Tilvist vátrygginga getur haft mikla þýðingu fyrir sjálfboðaliða. Ef hann þiggur ekki laun fyrir sjálfboðaliðastarfann, eða hefur fjárhagslegan ávinning af því, og sinnir því verki í frítíma sínum, geta heimilis- eða fjölskyldutryggingar, sem nefndar eru í greinargerðinni, haft eftirtalin áhrif. Í fyrsta lagi gæti sjálfboðaliðinn fengið nokkrar bætur fyrir líkamstjón sitt sem hann yrði fyrir í starfi sem sjálfboðaliði. Í öðru lagi gæti tilvist ábyrgðartryggingarþáttar í heimilis- eða fjölskyldutryggingu, sem sjáflboðaliði hefði tekið, leitt til þess að honum yrði haldið skaðlausum þótt hann yrði skaðabótaskyldur vegna tjóns, sem hann kynni að valda öðrum. Hann gæti þó þurft að bera einhverja sjálfsáhættu.

ÍSÍ á eftir að fjalla nánar um niðurstöður Viðars Más og skoða hvaða skref íþróttahreyfingin getur stigið til að tryggja sem best öryggi sjálfboðaliða, bæði gagnvart tjónum/skaða sem þeir geta orðið fyrir og tjónum/skaða sem þeir geta valdið.