Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

25.10.2024 - 26.10.2024

Landsþing LH 2024

Ársþing Landssambands hestamannafélaga verður...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
21.11.2024 - 21.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
15

Lokaskýrsla um mótvægisaðgerðir stjórnvalda vegna COVID-19

21.02.2023

 

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur gefið út yfirgripsmikla lokaskýrslu um mótvægisaðgerðir stjórnvalda vegna heimsfaraldurs kórónuveiru á árunum 2020 - 2022. Þær aðgerðir námu alls 450 milljörðum króna eða 4,5% af landsframleiðslu áranna, sjá frétt á vef stjórnarráðsins í dag.

Í skýrslunni er m.a. farið yfir stuðning ríkisins við íþrótta- og æskulýðsfélög og er það mjög áhugaverð samantekt.

Endurgreiðslur til íþrótta- og æskulýðsfélaga vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna áttu að stuðla að því að íþrótta- og æskulýðsfélög gætu hafið óbreytta starfsemi að nýju eftir að þeim hafði verið gert að fella niður starfsemi. Markmiðið var þannig að sem minnstar raskanir yrðu á íþróttastarfi til lengri tíma. Stuðningurinn náði til íþróttafélaga og sambanda sem starfa innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem hófu starfsemi fyrir 1. október 2020 og þurftu að fella niður starfsemi tímabundið, að hluta eða öllu leyti, vegna opinberra sóttvarnaráðstafana á tímabilinu 1. október 2020 til og með 30. júní 2021. Alls sóttu 64 félög um endurgreiðslu hjá Vinnumálastofnun og nemur heildargreiðsla til þeirra 1.638 millj.kr. vegna vinnu tengdri barna- og afreksstarfi íþróttafélaga. Laun 1.254 launþega voru greidd og greitt var fyrir vinnu 1.342 verktaka. Úrræðið tryggði því tekjur alls 2.596 einstaklinga.

Þá fengu íþrótta- og æskulýðsfélög úthlutað 350 millj.kr. í fimmtu fjáraukalögum ársins 2020 og 100 millj.kr. í fjáraukalögum II ársins 2021 vegna tekjufalls og 500 millj.kr. runnu til félaganna í gegnum fjárfestingarátak stjórnvalda á árinu 2020. Þessu til viðbótar var í fjáraukalögum II ársins 2022 ákveðið að styrkja íþróttaog æskulýðshreyfinguna um 450 millj.kr. vegna tekjufalls og kostnaðar vegna sóttvarnaaðgerða. Sérsambönd, héraðssambönd og íþróttabandalög, íþróttafélög með aðild að ÍSÍ og UMFÍ og deildir innan íþróttafélaga gátu sótt um stuðning. Alls sóttu 73 félög um styrk í þessari viðbótarúthlutun.

Útfærsla úthlutunar og framkvæmdar var unnin í samstarfi við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) sem var falið að óska eftir umsóknum um stuðning vegna fjárhagslegra afleiðinga kórónuveirunnar á einingar innan íþrótta- og æskulýðshreyfingarinnar.

Stuðningur ríkisvaldsins á tímum kórónuveirunnar var íþróttahreyfingunni afar mikilvægur og gerði það að verkum að hægt var að hefja kröftugt íþróttastarf á ný við afléttingu takmarkana.