Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

20.09.2024 - 21.09.2024

Ársþing SKÍ 2024

Ársþing Skíðasambands Íslands verður haldið...
10.10.2024 - 10.10.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
16

Ráðstefnan SPORT 2023

17.02.2023

 

Líkt og í tengslum við fyrri Reykjavíkurleika var haldin ráðstefna í tenglum við leikana og var yfirskrift hennar  SPORT 2023. Ráðstefnan fór fram 1. og 2. febrúar sl. í Háskólanum í Reykjavík en hún var samvinnuverkefni ÍSÍ, ÍBR, UMFÍ og HR.  Ráðstefnan þótti mjög áhugaverð og vel heppnuð og sóttu hana um 100 manns hvorn daginn.  Mikill fjöldi fólks fylgdist einnig með streymi sem í boði var frá ráðstefnunni.  Margir áhugaverðir fyrirlesarar voru mættir til leiks, innlendir sem erlendir. 

Fyrri dagurinn fjallaði um þjálfun afreksfólks. Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ opnaði ráðstefnuna og svo fylgdu á eftir fyrirlestrar frá Urban Johnson, prófessor í íþróttasálfræði sem fjallaði um sálfræði sem hluta af meiðslaforvörnum, Else-Marthe Sörlie Lybekk, fyrrum handknattleikskonu í norska landsliðinu og aðstoðarframkvæmdastjóra norska Íþrótta- og Ólympíusambandsins (NIF) með erindið; Af hverju vinna Norðmenn til svona margra verðlauna á Ólympíuleikum? og Daniel Gould, sem starfar sem forstöðumaður rannsóknadeildar fyrir íþróttir barna og unglinga í Michigan State háskólanum með fyrirlestur um þjálfun streitustjórnunar hjá afreksíþróttafólki. Knattspyrnuþjálfarinn Elísabet Gunnarsdóttir hélt svo erindið; Hvernig býr maður til liðsheild úr hópi afreksíþróttafólks? og að lokum var Vésteinn Hafsteinsson, nýráðinn afreksstjóri ÍSÍ, með fyrirlesturinn; Hvernig verður þú Ólympíumeistari? 

Seinni daginn var farið yfir íþróttir barna og unglinga fyrri part dagsins og svo stjórnun íþróttafélaga seinni part dags. Ásmundur Einar Daðason ráðherra mennta- og barnamála ávarpaði gesti og við tók svo fyrirlestur frá Daniel Gould um hvernig þjálfa eigi lífsleikni með þátttöku í íþróttum. Else-Marthe Sörlie Lybekk kynnti næst norska íþróttamódelið og að því loknu mætti Brian Marshall, landsliðsþjálfari Dana í sundi fatlaðra og frammistöðustjóri, með erindi; „Óviðeigandi hegðun þjálfara gerist ekki í tómarúmi! Þeir fá stuðning úr umhverfinu, hvernig getum við breytt því”? Bryndís Einarsdóttir, sálfræðingur, niðurstöður rannsókna á áhættuþáttum hjá ungu íþróttafólki í Reykjavík og Urban Johnson talaði að því loknu um brottfall barna og unglinga úr íþróttum. Hákon Sverrisson, þjálfari hjá Breiðabliki, lýsti svo íslenskri þjálfarareynslu og síðastur á mælendaskrá fyrir íþróttir barna og unglinga var Chris Harwood, prófessor í íþróttasálfræði hjá Loughborough háskólanum, með erindi um að hvetja skuli þjálfara og foreldra til að stuðla að sálfræðilegri þróun ungra iðkenda.

Síðasti hluti ráðstefnunnar fjallaði um stjórnun íþróttafélaga. Brian Marshall reið fyrstur á vaðið með erindi um hvort menning í þínu félagi vinni með þér eða á móti, og hvernig skilja eigi og velja menningu sem virkar fyrir þig. Arnór Ásgeirsson og Guðmundur Gunnarsson frá íþróttafélaginu Fjölni töluðu því næst um íslenskt íþróttafélag. Svali Björgvinsson frá knattspyrnufélaginu Val fylgdi á eftir með erindi um íþróttafélagið Val og framgang körfuboltans hjá félaginu og Elísabet Gunnarsdóttir þar á eftir með mikilvægi þess að íþróttafélagið geri sig gildandi í samfélaginu og hvernig það getur hjálpað til við að fá styrki. Síðasti fyrirlesturinn var svo haldinn af Guðmundi Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Akademias, og fjallaði hann um markaðssetningu í íþróttum.

Báðum fyrirlestrardögunum lauk með málstofu þar sem ráðstefnugestum var boðið að eiga óformlegt spjall við hluta af þátttakendum ráðstefnunnar.

Eins og áður sagði var streymt frá ráðstefnunni. Vonir standa til að hægt sé að bjóða upp á áhorf á streymið síðar, en á þessum tímapunkti er það ekki aðgengilegt.  

Myndir með frétt