Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

07.05.2024 - 07.05.2024

Ársþing HSV 2024

Ársþing Héraðssambands Vestfirðinga (HSV)...
24

Þjóðarhöll innanhússíþrótta - framkvæmdir hefjast í byrjun árs 2024

17.01.2023

 

Forsætisráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti og Reykjavíkurborg hafa gefið út sameiginlega fréttatilkynningu varðandi stöðu og næstu skref í uppbyggingu þjóðarhallar fyrir innanhússíþróttir.

Í fréttatilkynningunni kemur fram að þjóðarhöllin muni umbylta umgjörð í kringum landsliðsfólk í fjölmörgum íþróttagreinum, stórbæta aðstöðu fyrir börn og ungmenni og aðra íþróttaiðkendur auk þess að vera fjölnota hús fyrir þjóðina alla samkvæmt tillögum framkvæmdanefndar sem skipuð var af mennta- og barnamálaráðuneyti og Reykjavíkurborg. Höllin verður 19.000m2 að stærð, mun taka 8.600 manns í sæti og allt að 12.000 manns á tónleikum. 

Á blaðamannafundi ríkis og borgar í gær kynntu Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri stöðu mál og næstu skref varðandi uppbyggingu hallarinnar. Fram kom að þjóðarhöllin verður fjölnota mannvirki fyrir íþróttir, menningu, kennslu og viðburði.  Í skýrslu framkvæmdanefndar um Þjóðarhöll kemur fram að í höllinni verði fjölnota gólf og sæti verði að hluta til hreyfanleg þannig að unnt sé að nýta megnið af gólfi Þjóðarhallar frá degi til dags til íþróttaæfinga en höllin rúmi sömuleiðis stóra íþróttaviðburði, landsliðsleiki og tónleika. Einnig mun Þjóðarhöllin uppfylla kröfur alþjóðlegra íþróttasambanda þannig að hægt verði að spila leiki á stórmótum hér á landi.

Notendur verða íþróttafélög, landsliðshópar sérsambanda fyrir æfingar og keppni, skólar í nágrenninu, háskólar fyrir íþróttakennslu og ýmsir viðburðahaldarar. Þá er ætlunin að höllin sé aðgengileg almenningi til eflingar lýðheilsu með ýmsum æfingamöguleikum, auk veitingareksturs. Gert er ráð fyrir góðri tengingu og flæði milli Þjóðarhallar, Laugardalshallar og Frjálsíþróttahallar fyrir iðkendur, gesti og starfsfólk. Staðsetning hennar verður sunnan Laugardalshallar upp að Suðurlandsbraut. Áætlaður heildarkostnaður framkvæmdar er um 15 ma. kr.

Vinna að deiliskipulagi stendur yfir. Samhliða er unnið að undirbúningi útboðs á hönnun og framkvæmd annars vegar og eftirliti hins vegar. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í byrjun árs 2024 með verklokum haustið 2025.

Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ:  „Það er sannarlega ánægjulegt að sjá áætlanir varðandi uppbyggingu þessar mikilvæga mannvirkis. Það er ljóst að keyra þarf verkefnið hratt og vel áfram ef áætlanir um framkvæmdir í byrjun árs 2024 eiga að raungerast og höfum við fulla trú á því að metnaðarfull áætlun framkvæmdaraðila standist. Við erum öll afar spennt að sjá þjóðarhöllina rísa í Laugardalnum, hjarta íþróttahreyfingarinnar þar sem fyrir eru frábær íþróttamannvirki og höfuðstöðvar ÍSÍ og flestra sérsambanda ÍSÍ. Það er gríðarlega mikilvægt að leysa húsnæðisvanda landsliða innanhússíþrótta sem allra fyrst og frábært að sjá framkomnar tillögur um fjölnýtingu hússins. Þetta er dýr framkvæmd og áríðandi að geta sýnt fram á sem besta nýtingu mannvirkisins og fjármuna sem til þess renna.“

Myndir/stjornarradid.is

Myndir með frétt