Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

07.05.2024 - 07.05.2024

Ársþing HSV 2024

Ársþing Héraðssambands Vestfirðinga (HSV)...
25

Góður árangur á öðrum keppnisdegi EYOF

26.07.2022

Öðrum keppnisdegi EYOF í Banská Bystrica er nú lokið. Keppni hélt áfram í sundi, badminton og handknattleik á leikunum í dag og hófst einnig keppni í fimleikum og hjólreiðum. Þeir Sigurður Ari Stefánsson, Lúkas Ari Ragnarsson og Ari Freyr Kristinsson í fimleikunum kepptu í liða og fjölþrautarúrslitum og freistuðu þess á sama tíma að komast inn í úrslit á einstökum áhöldum sem fara fram á föstudag og laugardag. Hafa þeir nú lokið keppni en heilt yfir gekk keppni vel og stóðu strákarnir sig frábærlega gegn sterkum andstæðingum.  Bestan árangur íslensku strákanna í dag átti Sigurður Ari með 69.350 stig í fjölþraut.  

Hjólreiðafólkið hóf einnig keppni í dag. Sigríður Dóra Guðmundsdóttir keppti í tímatöku þar sem hjólaðir voru 8,4 km. Það var smá rigning í upphitun og í keppninni sjálfri hjá stúlkunum en það voru 78 stúlkur sem tóku þátt í tímatökunni. Keppendur voru ræstir með mínútu millibili og kláraði Sigríður á 15:05 mínútum. Þeir Brynjar Logi Friðriksson og Ísak Gunnlaugsson kepptu einnig í tímatöku í sömu braut og hjá stúlkunum. Þegar kom að keppni hjá strákunum byrjaði úrhellisrigning en strákarnir okkar létu það ekki á sig fá og kláraði Brynjar á 13:05 mínútum og Ísak á 12:28 mínútum. Vel gert hjá hjólreiðafólkinu sem keppir aftur á fimmtudag.

Í sundhöllinni hóf Ýmir Chatenay Sölvason daginn á 100m skriðsundi sem hann synti á 54.50 sekúndum og hafnaði í 39. sæti. Birnir Freyr Hálfdánarson tók síðan við í 200m fjórsundi og synti sig inn í undanúrslit á 2:07.52 mínútum sem er bæting á hans besta tíma. Seinni hluta dags stakk Birnir sér aftur til sunds í undanúrslitum synti þar á 2:05.90 mínútum og fer hann með hraðasta tíman inn í 8 manna úrslitin sem fara fram á morgun kl. 18:58 á staðartíma. Hann bætti einnig unglingamet Kristins Þórarinssonar frá 2014, sem var 2:06.30 mínútur. Íslenska boðsundssveitin í blönduðu 4x100m skriðsundi stakk sér einnig til sunds í morgun, en þar syntu þau Ýmir Sölvason, Birgir Hálfdánarson, Ylfa Lind Kristmannsdóttir og Nadia Djurovic mjög vel og höfnuðu í 17. sæti.

Lilja Bu og Máni Berg héldu keppni áfram í dag í badmintoninu og stóðu sig vel. Lilja spilaði fyrsta leik gegn Fjojona Janko frá Albaníu og sigraði mjög örugglega 21/1 og 21/4. Seinni leikurinn var á móti Anna Kovalenko frá Úkraínu sem hafði betur gegn Lilju Bu, 16/21 og 11/21. Máni Berg spilaði fyrsta leik gegn Manvel Harutyunyan frá Armeníu. Leikurinn var mjög jafn en tapaði Máni fyrstu lotunni 18/21, sigraði aðra lotuna 21/13 en tapaði þriðju lotunni 16/21. Seinni leikurinn var við Baton Haxhiu frá Kósóvu og sigraði Máni þann leik örugglega 21/3 og 21/7. Máni og Lilja eiga tvenndarleik á fimmtudag á móti Salomon Thomasen og Maria Hojlund frá Danmörku og má eiga von á hörkuleik. 

Íslensku strákarnir í handknattleiksliðinu börðust hart gegn Dönum í dag. Leikurinn var nokkuð jafn framan af og var staðan í hálfleik 10:11 Dönum í hag. Í seinni hálfleik náðu Danir að auka forskotið og sigruðu íslensku strákana 20:30. Strákarnir eiga leik á morgun gegn Spánverjum í síðasta leik riðlakeppninnar.

Stemningin í Banská Bystrica er frábær og eru íslensku ungmennin til fyrirmyndar innan keppni sem utan. 

Myndir frá setningarhátíð og fyrstu keppnisdögunum er hægt að nálgast hér á myndasíðu ÍSÍ. 

Myndir með frétt