Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

07.05.2024 - 07.05.2024

Ársþing HSV 2024

Ársþing Héraðssambands Vestfirðinga (HSV)...
27

„Eignuðumst frábæra vini alls staðar að úr heiminum”

11.07.2022

Elín Lára Reynisdóttir og Sigurður Már Atlason fóru nýlega á vegum ÍSÍ á námskeiðið Young Olympic Ambassadors á vegum Alþjóðaólympíuakademíunnar í Grikklandi. Þau gefa okkur hér smá innsýn inn í ferðina og námskeiðið:

„Hæ hæ! Við erum Elín Lára og Sigurður Már og erum nýkomin heim eftir tveggja vikna dvöl í Grikklandi á vegum ÍSÍ og Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC).Við fórum út sem þátttakendur á námskeiði sem kallast Young Olympic Ambassadors og er haldið árlega á vegum Alþjóðaólympíuakademíunnar IOA).

Við hófum ævintýrið í borginni Aþenu þar sem við skoðuðum bæði Akrópólis og Panathenaic leikvöllinn áður en haldið var á formlega opnunarhátíð á Pnyx hæðinni. Þar var öllu til tjaldað og við lok hátíðarinnar var námskeiðið formlega sett af forseta Grikklands.

Næsta dag var förinni loks heitið í sjálfa Akademíuna. Alls vorum við 144 þátttakendur frá yfir 80 löndum sem héldum í fimm klukkustunda rútuferð til Ólympíu. Alþjóðaólympíunefndin nýtti COVID-19 árin til þess að endurnýja alla innviði Akademíunnar en námskeiðið var haldið rafrænt síðustu 2 ár vegna faraldursins. Í Akademíunni er raðað í herbergi eftir kyni en herbergisfélagar raðast af handahófi og við fengum herbergisfélaga frá Púertó Ríkó og Brasilíu.

Dagskráin næstu 10 daga var þéttskipuð enda mikið sem þurfti að komast yfir á stuttum tíma. Við byrjuðum á því að heimsækja leikvanginn þar sem Ólympíuleikar til forna fóru fram. Þaðan fóru við svo beint á fyrstu fyrirlestrana og í framhaldi í vinnuhópana sem við áttum eftir að vera í út námskeiðið. Til viðbótar við fyrirlestrana og verkefnavinnuna þá gátum við einnig tekið þátt í allskonar íþrótta- og listaviðburðum. Við áttum að skrá okkur í eina liðsíþrótt, eina einstaklingsíþrótt og eina listasmiðju. Meðal annars var hægt að velja um að fara í fótbolta, körfubolta, strandblak, tennis og borðtennis. Í listasmiðjum var boðið upp á myndlist, dans, tónlist og skapandi skrif. Að auki tókum við þátt í Ólympíuhlaupinu sem var haldið í Ólympíu í fyrsta sinn og kepptu vinnuhóparnir í frjálsíþróttum svo eitthvað sé nefnt.

Við fögnuðum 17. júní með stæl en þá var stranddagur og eyddum við þjóðhátíðardeginum því á Mpouka ströndinni sem er í um hálftíma akstursfjarlægð frá Ólympíu. Frítími var af skornum skammti en við nýttum hann gjarnan til þess að rölta inn í bæinn og gæða okkur á grískum gyros. Við höfðum það að markmiði að reyna kynnast sem flestum þátttakendum og eignuðumst fyrir vikið frábæra vini alls staðar að úr heiminum.

Það er ekki hægt að segja annað en að þetta hafi verið einstakt ævintýri og sennilega var eini ókosturinn sá að við þurftum að snúa aftur heim og getum því miður ekki sótt um aftur!

Við munum búa að þessari ferð, minningunum og tengslunum út ævina. Að endingu viljum við þakka ÍSÍ fyrir þetta magnaða tækifæri og hvetjum við alla til þess að sækja um á næsta ári.“

Myndir með frétt