Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

20

Aldarafmæli UMSE

08.04.2022

Í dag, þann 8. apríl 2022, eru liðin 100 ár frá stofnun Ungmennasambands Eyjafjarðar (UMSE) en sambandið var stofnað á skrifstofu Kaupfélags Eyfirðinga. Stofnfélög voru 12 talsins. Í dag starfa 14 aðilarfélög innan sambandsins, í fimm sveitarfélögum. Innan þeirra félaga fer fram fjölbreytt íþróttastarf.

Í tilefni aldarafmælisins var saga sambandsins tekin saman í máli og myndum, í ritstjórn Óskars Þórs Halldórssonar. Hægt er að nálgast afmælisritið hér.

Lárus L. Blöndal ritaði eftirfarandi ávarp í afmælisritið:

„Ungmennasamband Eyjafjarðar, eitt af Fyrirmyndarhéruðum ÍSÍ, fagnar aldarafmæli sambandsins þann 8. apríl næstkomandi en þess má geta að sambandið var fyrsta íþróttahéraðið í landinu til að hljóta gæðavottunina Fyrirmyndarhérað ÍSÍ.

Aldarafmæli eru merkileg tímamót.  Slík tímamót segja manni að afmælisbarnið hafi gengið í gegnum ýmislegt og mætt stórum sem litlum áskorunum sem lífið og aðstæður bjóða upp á hverju sinni á svo langri leið. Þau segja manni jafnframt að sagan búi yfir mörgum sigrum, stórum og smáum, gleði og samhug.

Eitt hefur þó staðið svo til óbreytt í gegnum árin og það er starf og aðkoma sjálfboðaliða að íþróttastarfinu í héraðinu. Starf íþróttahreyfingarinnar byggir enn á því að fórnfúsir aðilar séu tilbúnir til að starfa sem sjálfboðaliðar í þágu íþrótta svo íþróttastarfið megi áfram dafna og blómstra í landinu. Þess vegna eru afmæli eininga í íþróttahreyfingunni sameiginlegt fagnaðarefni margra og jafnvel flestra á starfssvæðinu og því við hæfi að óska öllum sem koma að starfi UMSE innilega til hamingju með 100 ára afmæli sambandsins.

Í dag eru 11 íþróttagreinar stundaðar innan UMSE í 14 aðildarfélögum og því ýmislegt í boði fyrir íbúa á starfssvæði sambandsins. Íþróttahreyfingin er lifandi og síbreytileg og það sem gerir hana hvað mest spennandi eru óendanlegir möguleikar til breytinga, þróunar og eflingar. Vinsældir einstakra greina ganga í bylgjum og í dreifðari byggðum getur einstaklingsframtakið gert gæfumuninn um gengi starfseminnar. Hver og einn einstaklingur er alltaf einstakur og dýrmætur en það verður áþreifanlegra í fámenni heldur en fjölmenni. Þeir sem hafa upplifað og skynjað samtakamáttinn sem býr í íþróttahreyfingunni og orðið vitni að þeim afrekum sem unnin hafa verið, bæði í íþróttalegum skilningi en einnig í starfinu og öllum þeim smáu persónulegu sigrum sem hver og einn vinnur þegar hann nær markmiðum sínum á einn eða annan hátt, eiga erfitt með að slíta sig frá þeim segulmætti sem íþróttastarfið býr yfir. Í þeim sem alast upp við íþróttaiðkun slær félagshjartað oft út lífið og það er auður hreyfingarinnar að geta leitað til velviljaðs fólks um aðstoð og styrk þegar nauðsyn krefur. Það hefur komið sterkt fram síðustu misserin þegar við höfum búið við ýmsar takmarkanir, aukið flækjustig og skertar tekjur vegna kórónuveirufaraldursins. Þrátt fyrir hremmingar síðustu ára þá ríkir bjartsýni í í hreyfingunni og við hlökkum til þess tíma sem við getum öll keyrt áfram íþróttastarfið án takmarkana eða afkomukvíða, með jákvæðni og gleði í fararbroddi.

Stjórn og starfsfólk Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands óskar UMSE, aðilarfélögum þess og öllum iðkendum sem og öðrum sem koma að starfi innan vébanda UMSE, innilega til hamingju með aldarafmælið.

Megi sambandið halda áfram að dafna og eflast í framtíðinni.”