Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

07.05.2024 - 07.05.2024

Ársþing HSV 2024

Ársþing Héraðssambands Vestfirðinga (HSV)...
26

Auður Tinna fyrsta konan í embætti formanns BTÍ

04.04.2022

 

Borðtennissamband Íslands (BTÍ) hélt ársþing sitt í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal um síðastliðna helgi.

Örn Þórðarson gaf ekki kost á sér áfram í formannsembættið og var Auður Tinna Aðalbjarnardóttir einróma kjörin nýr formaður sambandsins. Er það í fyrsta sinn í 50 ára sögu sambandsins sem kona gegnir embættinu en sambandið var stofnað 12. nóvember 1972. Fram kom í ávarpi Auðar Tinnu að hún mun leggja áherslu á að styðja við og auka hlut stúlkna og kvenna innan borðtennishreyfingarinnar. Auður Tinna hefur starfað sem borðtennisþjálfari hjá KR undanfarin 15 ár og sem yfirþjálfari þar frá 1. janúar 2018. Auður sat í stjórn BTÍ árin 2016-2020 sem ritari sambandsins og hefur átt sæti í útbreiðslunefnd BTÍ síðastliðin tvö ár.

Með Auði Tinnu í stjórn sitja Anna Sigurbjörnsdóttir, Ingimar Ingimarsson, Kári Mímisson og Sigurjón Ólafsson. Í varastjórn sitja Pétur Stephensen, Bæring Guðmundsson og Jón Gunnarsson.

Á þinginu voru gerðar breytingar á lögum sambandsins, m.a. um að þing BTÍ verði framvegis haldið árlega.

Hörður Þorsteinsson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ sótti þingið fyrir hönd sambandsins. Hann afhenti, skv. ákvörðun framkvæmdastjórnar ÍSÍ, þeim Ástu Urbancic og Pétri Stephensen Gullmerki ÍSÍ fyrir góð störf í þágu borðtennisíþróttarinnar í landinu. Þess má geta að Ásta og Pétur voru einnig sæmd gullmerki BTÍ á þinginu.

Myndirnar sem fylgja fréttinni eru af nýrri stjórn annars vegar og hins vegar af heiðurshöfunum ásamt Herði Þorsteinssyni úr framkvæmdastjórn ÍSÍ.

Myndir með frétt