Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

20

Bjarni Már endurkjörinn formaður HRÍ

01.03.2022

 

Ársþing Hjólreiðasambands Íslands (HRÍ) fór fram í sal Ármanna í Hverafold í Grafarvogi laugardaginn 26. febrúar sl. Þingið var vel sótt en alls mættu 37 fulltrúar af þeim 45 sem rétt áttu til setu á þinginu. Garðar Svansson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ var þingforseti ÍSÍ og ávarpaði hann þingið sem fulltrúi ÍSÍ við þingsetningu. 

Fram kom að mikill metnaður er til þess að efla mótahald í íþróttinni og fjölga hjólreiðafélögum á landsvísu. Nýtt félag er nýstofnað á starfssvæði Ungmennasambands Borgarfjarðar og verður vonandi komið með fulla aðild að íþróttahreyfingunni innan skamms. Nokkrar breytingar voru samþykktar á lögum sambandsins og reikningar voru samþykktir. Sambandið var rekið með tapi á síðasta ári en talsverður kostnaður hefur farið í uppbyggingu sambandsins undanfarin misseri.

Bjarni Már Svavarsson var endurkjörinn formaður HRÍ. Kosið var um tvö sæti í stjórn og hlutu Björgvin Tómasson og Hjalti G. Hjartarson kosningu í þau sæti. Í varastjórn voru kjörin Gunnlaugur Sigurðsson, Margrét Arna Arnardóttir og Svanur Daníelsson.

Myndir með frétt