Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

13

Öllum takmörkunum aflétt á miðnætti

23.02.2022

Á miðnætti verður öllum takmörkunum vegna COVID-19 faraldursins aflétt, bæði innanlands og við landamærin. Þetta eru mikil gleðitíðindi fyrir íþróttahreyfinguna sem og alla landsmenn.

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ:
„Þetta eru merkileg tímamót. Vonandi sjáum við nú fram á að losna undan faraldrinum og áhrifum hans, á næstu vikum og mánuðum. Áskoranirnar í tengslum við faraldurinn hafa verið af ýmsum toga. Þrátt fyrir oft erfiða tíma og flókna hefur verið mikil samstaða innan hreyfingarinnar og mikill vilji til þess að halda íþróttastarfi gangandi í takti við gildandi sóttvarnarreglur og með þeim takmörkunum sem þeim fylgdu hverju sinni. Þessi tími hefur þó skilað okkur ýmsu jákvæðu, bæði íþróttahreyfingunni og samfélaginu, sem mun fylgja okkur áfram veginn að þessum tíma loknum. Við höfum meðal annars lært að bregðast við ýmsum aðstæðum sem aldrei höfðu áður komið upp í okkar starfi, að nýta tæknilausnir, sýna mikla þrautseigju og útsjónasemi og standa saman sem einn maður í því mótlæti sem við mættum í faraldrinum. Það hefur skipt miklu máli að missa ekki kjarkinn og seigluna í gegnum þennan tíma heldur halda fast í bjartsýni og trú á að um tímabundið ástand væri að ræða. Það er mikil tilhlökkun í loftinu og vonandi erum við á fullri siglingu inn í viðburðarríkt íþróttavor þar sem aftur verður leyfilegt að þétta raðirnar og sýna stuðning í verki á áhorfendasvæðunum.”

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands þakkar sambandsaðilum kærlega fyrir gott samstarf í gegnum þennan ótrúlega og ófyrirsjáanlega tíma og einnig er vert að hrósa og þakka starfsfólki, þjálfurum, iðkendum og sjálfboðaliðum í íþróttahreyfingunni fyrir frábær störf og æðruleysi í oft flóknum aðstæðum.

ÍSÍ vil að lokum benda á það að þó öllum takmörkunum verði nú aflétt er áfram mikilvægt að halda sig heima ef veikindi gera vart við sig og fara varlega, sérstaklega í kringum viðkvæma hópa.