Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

07.05.2024 - 07.05.2024

Ársþing HSV 2024

Ársþing Héraðssambands Vestfirðinga (HSV)...
25

Börn af erlendum uppruna - fjórir styrkir greiddir út

01.11.2021

Í lok september auglýstu Íþrótta-og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) eftir umsóknum um styrki frá sérsamböndum, íþróttahéruðum og íþrótta- og ungmennafélögum landsins. Um var að ræða fjóra styrki upp á 250.000 krónur, til að standa fyrir verkefni sem hvetur börn og ungmenni af erlendum uppruna og fjölskyldur þeirra til þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi.

Níu umsóknir bárust og hlutu eftirtaldir aðilar styrkina:

  • Dansfélagið Bíldshöfði fyrir aukna danskennslu barna og ungmenna af erlendum uppruna í samstarfi við frístundaheimili í efra Breiðholti.
  • Héraðssamband Vestfirðinga (HSV) fyrir kynningu á starfsemi félagsins á vordögum grunnskóla með aðstoð túlka, þýðingu á stundatöflum og tékklistum fyrir foreldra barna af erlendum uppruna.
  • Sunddeild KR fyrir að bjóða upp á sérstakt sundnámskeið fyrir börn og ungmenni af erlendum uppruna.
  • Skautafélag Akureyrar fyrir gerð auglýsingar fyrir samfélagsmiðla þar sem iðkendur félagsins af erlendum uppruna hvetja önnur börn af erlendum uppruna til þátttöku í íþróttum.

Tímarammi verkefnanna er veturinn 2021 – 2022. Óskað verður eftir skýrslu um framgang og árangur verkefnanna vorið 2022. Einnig verður óskað eftir því að verkefnin verði kynnt á viðburði á vegum ÍSÍ og UMFÍ næsta vor.

Vertu með bæklingar

ÍSÍ og UMFÍ minna á bæklinginn Vertu með, sem kom út haustið 2018. Markhópur bæklingsins er foreldrar barna og ungmenna af erlendum uppruna. Markmiðið með útgáfu hans er að vekja athygli á mikilvægi þess að öll börn taki þátt í skipulögðu íþróttastarfi.

Í bæklingnum eru hagnýtar upplýsingar um starfsemi íþrótta- og ungmennafélaga landsins.

  • Upplýsingar um æfingagjöld íþróttafélaga.
  • Frístundastyrki
  • Mikilvægi þátttöku foreldra og kosti þess að hreyfa sig í skipulögðu starfi.

Bæklingurinn er á níu tungumálum, þ.e. á íslensku, ensku, pólsku, spænsku, taílensku, litháísku, filippseysku, arabísku og víetnömsku.

Smelltu hér til þess að skoða bæklinginn.