Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

20

Verkefni 5 C´s hleypt af stokkunum

08.09.2021

Verkefnið 5C´s sem hlotið hefur 30 milljón króna styrk úr styrkjaáætlun Evrópusambandsins Erasmus+ var opinberlega hleypt af stokkunum í síðustu viku, með fundahaldi og námskeiði. Að verk­efn­inu standa ÍSÍ, UMFÍ, Knattspyrnusamband Íslands, Fim­leika­sam­band Íslands, Há­skól­inn í Reykja­vík og Loug­h­borough há­skóli í Englandi. Tvö félög/deildir áttu fulltrúa á námskeiðinu, fimleikadeild Ármanns og knattspyrnudeild Fylkis. Bæði starfs­menn fé­lag­anna og þjálf­ar­ar koma að verkefninu, ásamt rann­sókn­art­eymi háskólanna og starfs­mönn­um sem vinna að þessu verk­efni.

Verk­efnið snýst um að þjálfa fimm þætti í sál­rænni og fé­lags­legri færni barna og ung­linga í íþrótt­um, rétt eins og þá lík­am­legu. Þess­ir þætt­ir eru skuld­bind­ing, sam­skipti, sjálfs­traust, sjálf­sagi og ein­beit­ing. Höfundur verkefnisins er Dr Chris Harwood prófessor við Loughborough háskóla en hann hefur unnið með íþróttafélögum að því að byggja upp andlega og félagslega færni hjá ungu íþróttafólki og byggja upp jákvæða íþróttamenningu.  Harwood starfaði um tíma sem sál­fræðing­ur hjá liðum yngri flokka í breska fót­bolt­an­um. Þá komst hann að því að þjálf­ar­ar ein­beittu sér sjaldnast að þjálf­un sál­fræðilegr­ar og fé­lags­legr­ar færni. „Ein­blínt var á tækni­lega og lík­am­lega færni en ekki á sál­fræðilega og fé­lags­lega færni. Mér þótti mik­il­vægt að tryggja að at­hygl­in myndi bein­ast að þess­um þátt­um. Þetta er eitt­hvað sem hjálp­ar þeim ekki ein­ung­is í íþrótt­un­um held­ur líka í líf­inu öllu,“  seg­ir Harwood.  „Við vinn­um með þjálf­ur­um til þess að hjálpa þeim að skilja hvað hvert C þýðir og hvernig mik­il færni í hverju atriði lít­ur út. Þeir geta svo unnið með það lengra, á æf­ing­um, í leikj­um og í sam­skipt­um. Þjálf­ar­arn­ir verða að vinna með hug­mynda­fræðina á sín­um for­send­um, eft­ir sinni menn­ingu. Þjálf­ar­arn­ir hér á Íslandi þekkja menn­ing­una hér til dæm­is miklu bet­ur en ég.“ Mark­miðið er einnig að gera íþrótta­fólk­inu sjálfu ljóst hvernig fé­lags­leg og and­leg færni lít­ur út og hvernig er hægt að bæta sig í henni og setja sér markmið þar að lútandi. „Þegar þeir gera sér grein fyr­ir því geta þeir haldið áfram að vinna í því að styrkja þessa kosti sína,“ seg­ir Harwood.

Vinnustofan var haldin í Háskólanum í Reykjavík og var markmið hennar að auka þekkingu þjálfara á því hvernig stuðla megi að samþættingu sálfélagslegra þátta í þjálfun og undirbúa þjálfarana fyrir verkefnin sem framundan eru. Ítarleg rannsóknarvinna á áhrifum verkefnisins á iðkendur og þjálfara er í höndum fræðimanna frá Háskólanum í Reykjavík og Loughborough háskóla.  Lykilmarkmið verkefnisins er að skoða hvort að þessi íhlutun hafi jákvæð áhrif á sálfélagslega færni iðkenda. Hugmyndafræði 5C´s svipar að mörgu leyti til verkefnis UMFÍ og ÍSÍ, Sýnum karakter.

Myndir með frétt