Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

20.09.2024 - 21.09.2024

Ársþing SKÍ 2024

Ársþing Skíðasambands Íslands verður haldið...
10.10.2024 - 10.10.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
19

Verðlaunaafhending Hjólað í vinnuna 2021

28.05.2021

Verðlaunaafhending Hjólað í vinnuna 2021 fór fram í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal í hádeginu í dag, 28. maí. Hjólað í vinnuna er því formlega lokið í ár. Fyrr í vikunni lauk skráningum ferða og þar með voru úrslitin ljós.

Verðlaun voru veitt fyrir þrjá efstu vinnustaðina í öllum flokkum fyrir hlutfall þátttökudaga. Í kílómetrakeppninni voru þremur efstu liðunum veitt verðlaun fyrir bæði heildarfjölda kílómetra og hlutfall kílómetra miðað við fjölda starfsmanna. Alla vinnustaði í verðlaunasæti má finna hér á vefsíðu verkefnisins.

Í ár voru þátttakendur alls 6.271 talsins og vinnustaðir voru alls 533 sem skráðu 1.124 lið til keppni. Skráðir kílómetrar voru 381.395 km sem jafngildir um 285 hringjum í kringum landið.

Á meðfylgjandi mynd eru tveir starfsmenn Grundaskóla sem unnu í flokki 70-129 starfsmenn. Sú sem heldur á verðlaununum hefur verið forsprakkinn í Hjólað í vinnuna átakinu í Grundaskóla í fjöldamörg ár en skólinn hefur unnið átakið í þessum flokki þó nokkrum sinnum. Nú fer hún á eftirlaun en treystir á samstarfsfólkið til þess að halda heiðri Grundaskóla á lofti. Starfsfólk Hjólað í vinnuna þakkar henni fyrir að vera mikill drifkraftur fyrir átakið úti í samfélaginu.

Hjólað í vinnuna 2021

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands stóð í nítjánda sinn fyrir verkefninu Hjólað í vinnuna, heilbrigðri vinnustaðakeppni um allt land, dagana 5.-25. maí. Fyrir mörgum er verkefnið vorboðinn ljúfi og er verkefnið stór þáttur í fyrirtækjamenningunni á mörgum stöðum. Landsmenn hafa tekið verkefninu mjög vel og hefur hjólaumferð aukist verulega síðan verkefnið fór fyrst af stað.

Meginmarkmið Hjólað í vinnuna er að vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Það er nefnilega einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi að nota virkan ferðamáta.

Nánari upplýsingar um Hjólað í vinnuna er að finna á www.hjoladivinnuna.is.

Hér að neðan er mynd af liði NOVA en þau unnu flokkinn 130-399 starfsmenn.

Fleiri myndir af verðlaunaafhendingu er hægt að finna hér á myndasíðu ÍSÍ.