Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

20.09.2024 - 21.09.2024

Ársþing SKÍ 2024

Ársþing Skíðasambands Íslands verður haldið...
10.10.2024 - 10.10.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
16

Ráðstefna RIG - Íþróttir eru fyrir alla

09.02.2021

Ráðstefnan Íþróttir eru fyrir alla var haldin þann 4. febrúar sl. í tengslum við Reykjavíkurleikana og fór fram í Háskólanum í Reykjavík. Vegna samkomutakmarkana voru fáir áheyrendur í sal, en ráðstefnunni var streymt á Youtube rás Reykjavíkurleikanna. Að ráðstefnunni stóðu auk Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ), Ungmennafélag Íslands (UMFÍ), Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) og Háskólinn í Reykjavík (HR).

Ásmundur Einar Daðason félags-og barnamálaráðherra opnaði ráðstefnuna. Í máli hans kom fram að hann vill að Ísland verði í framtíðinni enn barnvænna samfélag en það er í dag. Hann leggur áherslu á að börnum og ungmennum líði vel, þau séu virk, þeim hjálpað að takast á við áföll, komi þau upp og að börn hafi möguleika til að taka þátt í sem flestu. Börn eigi að fá að vera eins virkir þátttakendur í samfélaginu og mögulegt er miðað við getu, þroska og vilja. Hann sagði það eftirsóknarvert að öll börn geti tekið þátt í íþrótta-og tómstundastarfi án þess að verða fyrir fordómum, áreitni og neikvæðni. Þátttaka í íþrótta-og tómstundastarfi hefði margvísleg jákvæð áhrif á líkamlega, andlega og félagslega heilsu barna og ungmenna. Börn og ungmenni sem taka þátt gangi oft betur í námi, séu ólíklegri til að misnota vímuefni og farnist almennt betur í lífinu. Þátttakan ýti undir þá tilfinningu að tilheyra, það sé skemmtilegt að taka þátt og vera hluti af heild. Öll börn ættu að hafa jöfn tækifæri til þátttöku, börn af tekjuminni heimilum, fötluð börn, börn af erlendum uppruna og hinsegin börn. Íþróttir eigi að vera fyrir alla. Í gegnum öflugt íþrótta- og tómstundastarf þar sem góðum grunngildum er haldið á lofti er hægt að hafa mikil áhrif á þroska hvers einstaklings. Það eigi að ýta undir grunngildi eins og virðingu, umburðalyndi, jákvæð samskipti, umhyggju, hugrekki og heiðarleika og útrýma fordómum og efla þannig vellíðan barna og ungmenna. Íþrótta-og tómstundastarf er kjörinn, ef ekki besti vettvangurinn til þessa verkefnis.
Stjórnvöld hafa sett á fót ýmis verkefni vegna Covid 19 m.a. hafa stjórnvöld bætt 45.000 krónur við frístundastyrki sveitarfélaganna til tekjulágra einstaklinga/fjölskyldna. Einnig hefur stýrihópur verið skipaður til að fylgja verkefninu eftir og ráðið Sigrúnu Sjöfn Ámundadóttur sem verkefnastýru til að taka saman árangurinn að veitingu þessara styrkja og halda utan um verkefnið. Sýn Ásmundar er að þessi aðgerð geti orðið grunnur að raunverulegri kerfisbreytingu til framtíðar. Kerfi sem geti gripið þessi börn og þessar fjölskyldur.

Félagsmálaráðuneytið vinnur einnig að verkefninu barnvænt samfélag. Það verkefni felst í verkfærakistu og líkani sem styður við innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna inn í stjórnsýslu og starfsemi allra sveitarfélaga. Hugmyndafræðin byggir á alþjóðlegu verkefni UNICEF eða Child friendly cities sem hefur verið innleitt í hundruðir sveitarfélaga um heim allan. Stefnan er sett á að öll sveitarfélög verði barnvæn sveitarfélög og Ísland þar með barnvænt land.

Næst á mælendaskrá var Hrafnhildur Guðjónsdóttir verkefnastjóri barnvæns sveitarfélags á Akureyri en erindið bar heitið Raddir barna. Akureyri er fyrsta barnvæna sveitarfélagið á Íslandi, fyrst til að innleiða Barnasáttmálann inn í allt sitt stjórnkerfi og tvinna hann inn í daglegt líf barna. Börn eru fengin að borðinu til að fá þeirra hugmyndir og sýn á ýmsar nálganir og verkefni og það eru þeirra raddir sem aðgerðaráætlun verkefnisins er unnin eftir. Barnvæn sveitarfélög gera Barnasáttmálann að rauðum þræði í allri starfsemi sinni, eiga markvisst samráð við börn og ungmenni og nýta raddir þeirra til að bæta þjónustu sveitarfélagsins.

Þráinn Hafsteinsson, verkefnastjóri á Þjónustumiðstöð Breiðholts var næstur og bar fyrirlesturinn hans heitið Frístundir í Breiðholti. Þetta verkefni er til þriggja ára og er markmið þess þríþætt; -að auka þátttökuhlutfall barna í íþrótta- og frístundastarfi í Breiðholti til jafns við meðaltal í Reykjavík.-að auka nýtingu frístundakortsins í Breiðholti til jafns við meðaltal í Reykjavík og að auðvelda félagslega þátttöku, íslenskunotkun og samfélaglega virkni barna með mismunandi bakgrunn að íslensku samfélagi. Í verkefninu er lögð áhersla á að kynna íþróttir fyrir börnum strax á leikskólaaldri með ýmsum nálgunum. Í 1. og 2. bekk geti börnin prófað og fært sig á milli íþróttagreina og annars tómstundastarfs á meðan að þau eru að finna hvar þeirra áhugi liggur. Gjaldfrí frístundarúta með leiðsögumanni auðveldar börnunum að komast á milli skóla, íþróttaæfinga, frístunda og heimilis. Allar íþróttir og frístundir verði í boði á vinnutíma foreldra. Kynningarmálin eru sameiginlegt verkefni Þjónustumiðstöðvar Breiðholts, leikskólanna, grunnskólanna og íþrótta-og frístundaaðila og í náinni samvinnu við samtök íbúa af erlendum uppruna og foreldrafélög grunnskólanna. Lögð er áhersla á að í íþrótta- og frístundastarfinu fari fram markviss örvun í íslenskunotkun og félagslegum tengslum. Haldin eru menningarnæmisnámskeið fyrir kennara, leiðbeinendur og þjálfara til að efla skilning þeirra og taka tillit til mismunandi bakgrunns barnanna. Verkefnið hefur úr að spila styrktarsjóði til stuðnings efnaminni fjölskyldum til að standa straum að viðbótarkostnaði eins og þátttöku í viðburðum, kaupa og leigu á búnaði. Unnið er að því í þessu verkefni að senda sömu skilaboðin úr öllum áttum, fylgja sömu reglum og efla börn í frístunda- og íþróttaþátttöku. Menntavísindasvið HÍ mun rannsaka og meta framgang verkefnisins.

Næst tók til máls Arna Sigríður Albertsdóttir nemi í íþróttafræði og bar fyrirlesturinn hennar heitið Frá svigskíðum yfir í handahjólreiðar. Arna Sigríður prófaði margar íþróttagreinar sem barn en þegar hún var 16 ára þá slasaðist hún illa í skíðaslysi, hlaut mænuskaða og lamaðist fyrir neðan brjóst. Það tók hana langan tíma að fara að stunda íþróttir aftur. Hún talaði um mikilvægi þess að hafa fyrirmyndir fatlaðs íþróttafólks og fræðslu frá jafningjum. Að sjá fatlað íþróttafólk framkvæma eitthvað sem hún hélt fyrirfram að væri ómögulegt, virkaði hvetjandi. Hún væri ekki á þeim stað í dag ef hún hefði ekki haft sterkar innlendar og erlendar fyrirmyndir úr röðum fatlaðra og góða vini í svipaðri stöðu sem hún gæti leitað til. Hún hældi Íþróttasambandi fatlaðra fyrir mjög gott starf. Í fyrirlestrinum kom fram að almenningsíþróttaviðburðir gerðu ekki ráð fyrir þátttöku fatlaðra, skipuleggjendum þætti það líklega of flókið. Arna Sigríður stakk upp á því að leitað yrði til fatlaðra einstaklinga með lausnir að skipulagi, því að fatlaðir einstaklingar væru sérfræðingar í að leysa sín vandamál. Þá talaði hún um að staða fólks með fötlun í íþróttum væri lítið rannsökuð, börn með fötlun væru oft útilokuð frá skólaíþróttum, tækju síður þátt í íþróttastarfi en ófötluð börn og stunduðu minni hreyfingu innan skóladagsins. Þetta hefði neikvæð áhrif á félagslega stöðu fatlaðra barna. Arna Sigríður kom inn á að aðgengi fatlaðra að líkamsræktarstöðum og íþróttamannvirkjum væri oft ábótavant. Þá gæti þátttaka fatlaðra einstaklinga í íþróttastarfi verið dýr, sérstaklega þar sem sérsniðinn búnaður er nauðsynlegur, en þátttaka hins opinbera í kostnaði væri enginn. Hún talaði um að það væri ekki bara slæmt að vera íþróttamaður með fötlun og tækifærin til að koma sér á framfæri væru mörg. Að hennar mati gera fjölmiðlar oft litlar kröfur til íþróttafólks úr röðum fatlaðra og íþróttafólkinu ekki tekið eins alvarlega og þá sé fötlunin oft gerð að aðalatriði í umfjöllun. Hún segist fyrst og fremst vera háskólanemi og hjólreiðakona en ekki kona sem einkennist af hreyfihömlun sinni og vill ná árangri eins og margir aðrir íþróttamenn.

Fimmti einstaklingurinn á mælendaskrá var Tótla I. Sæmundsdóttir, fræðslustýra Samtakanna ´78 með erindið Hinsegin í íþróttum, rannsókn á líðan hinsegin ungmenna.

Í upphafi erindis síns renndi Tótla yfir skilgreiningar á því hvað er að vera hinsegin en það er regnhlífarhugtak yfir kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni og kyntjáningu. Síðan kynnti hún niðurstöður alþjóðlegrar skólarannsóknar á hinsegin ungmennum á aldrinum 13-20 ára og skoðaði íþróttavinkilinn í rannsókninni. Þátttakendur voru 183 einstaklingar og var meðalaldur 16,7 ár. Þegar þátttakendur í rannsókninni voru spurðir um hver væri helsta ástæða óöryggis í skólum þá svaraði einn af hverjum þremur að kynhneigð væri helsta ástæðan og fjórðungur talaði um að kyntjáning væri helsta ástæðan. Aðrar helstu ástæður sem þau nefndu voru þyngd, námsgeta og kyn. Þátttakendur voru einnig spurðir út í staði sem þau forðuðust í skólunum þá skoruðu búningsklefar, íþróttatímar og íþróttahús hæst. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru að um það bil helmingur tilkynnir aldrei áreiti eða ofbeldi til fullorðinna, þau töldu að samnemendur væru líklegri til að grípa inn í ef þau yrðu vitni að hómófóbískum ummælum og helmingur þátttakenda hafði aldrei heyrt talað um hinsegin fólk eða menningu í jákvæðu ljósi. Í lok erindis síns talaði Tótla um hvað íþróttahreyfingin gæti gert til að bæta stöðu hinsegin fólks. Hún talaði um mikilvægi þess að grípa inn í ef maður yrði vitni að hómófóbískum ummælum. Hommabrandarar væru t.d. ekki meinlausir þó að meiningin á bak við þá eigi ekki að vera slæm. Það séu þjálfarar sem setji tóninn. Það þyrfti að gera ráð fyrir fjölbreytileikanum í starfinu og gera ekki ráð fyrir að allir séu gagnkynhneigðir. Við ráðningar á þjálfurum erlendis frá er mikilvægt að gera grein fyrir því að virðing fyrir hinsegin fólki sé liður í jafnréttissjónarmiðum félagsins. Svo ætti að tala á opinn og fordómalausan hátt um hinsegin fólk og ekki sneiða hjá því. Skilaboðin ættu að vera jákvæð og skýr og svo skipti sýnileikinn máli, hafa t.d. regnbogafánann sýnilegan á skrifstofu eða í íþróttahúsinu.

Næstur á mælendaskrá var Ingi Þór Jónsson með erindið 37 árum síðar: Upplifun samkynhneigðs ólympíufara og afreksmanns í sundi. Ingi Þór bjó erlendis í 30 ár þar af lengi í Bretlandi, en er nú búsettur á Íslandi. Þegar Bretar héldu Samveldisleikana í Manchester árið 2002 vildu þeir skapa arfleifð leikanna sem íþróttir fyrir alla. Ingi Þór tók þátt í að undirbúa hvernig leikarnir gætu höfðað til hinsegin fólks í borginni. Í kjölfar leikanna voru stofnuð mörg íþróttafélög fyrir samkynhneigða og í kjölfarið voru stofnaðir fyrstu leikar samkynhneigðra og fóru þeir fram í Manchester árið 2005 með þátttöku um 1100 manns víðs vegar að úr Evrópu. Enn þann dag í dag fara Pride Games fram í Manchester borg og eru mikið aðdráttarafl fyrir borgina. Ingi Þór var ánægðastur með að með leikunum tókst að skapa öruggan heim til að stunda íþróttir fyrir samkynhneigða og vinna þannig að bættri heilsu þeirra bæði andlega og líkamlega. Hann talar um erfiðleikana með að koma út úr skápnum sem afreksíþróttamaður og tækifæri hinsegin fólks til að ná árangri í íþróttum séu ekki alltaf þau sömu enda vanti oft rými til að vera öðruvísi í kynjaskiptum heimi íþróttanna. Afleiðinguna segir Ingi Þór vera þá að einhver hópur barna verði útundan og treystir sér ekki til að taka þátt. Hann vill meina að það hefði verið útilokað fyrir sig að koma út úr skápnum sem afreksíþróttamaður í sundi, fordómarnir hefðu verið svo miklir. Von hans er sú að með aukinni meðvitund verði íþróttir öruggur og uppbyggjandi staður fyrir öll börn, ungmenni og fullorðna.

Síðust til að taka til máls var Birta Björnsdóttir verkefnastjóri siðamála frá ÍBR með erindið Verkferlar og leiðbeiningar, bæklingur um kynferðislegt ofbeldi og kynferðislega áreitni í íþróttum. Í fyrirlestri sínum kynnti Birta fjölþætta vinnu í siðamálum sem ÍBR hefur unnið að á undanförnum árum, m.a. hafa verið haldnar vinnustofur og ráðstefnur, settur á stofn faghópur til að leysa úr ágreiningi, gefinn út bæklingur með leiðbeiningum og verkferlum, samdar siðareglur gegn kynferðislegri áreitni og kynferðislegu ofbeldi og haldin kynning hjá íþróttafélögum í borginni. ÍBR hefur haldið utan um tölfræði yfir þau mál sem hafa komið upp í þessum málaflokki í borginni undanfarin þrjú ár. Að lokum sagði Birta frá öllu því efni sem væri að finna frá fyrri ráðstefnum á heimasíðu Reykjavíkurleikanna www.rig.is/radstefna.

Ráðstefnustjóri var Hjalti Rúnar Oddson kennari í HR.


ÍSÍ vill minn á það efni sem til er hjá ÍSÍ, bæði rafrænt og í bæklingaformi:

Bæklingar

Kynferðislegt ofbeldi í íþróttum

Aðgerðaráætlun gegn einelti

Trans börn og íþróttir

 

Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs

Starfandi er samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs sem allir innan íþrótta- og æskulýðsstarfs geta leitað til og nýtt sér þá þjónustu sem hann veitir, án endurgjalds. Þess má geta að samskiptaráðgjafi starfar óháð íþrótta- og æskulýðsfélögum og samtökum.

Heimasíða samskiptaráðgjafa er https://www.samskiptaradgjafi.is/ og þjónar hún sem upplýsinga- og fræðslusíða starfsins. Hægt er að setja sig í samband við samskiptaráðgjafa í gegnum síðuna, tilkynna atvik og fá ráðgjöf eða aðrar upplýsingar.


Myndir með frétt