Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
14

Til hamingju með daginn!

28.01.2021

Í dag eru 109 ár frá því að ÍSÍ var stofnað.

Í íþróttahreyfingunni eru öll ár viðburðarrík. Það liggur í eðli starfseminnar, sem snýst um fólk á öllum aldri og hreyfingu þeirra. Verkefni ÍSÍ hafa auðvitað tekið breytingum í áranna rás og ytri kröfur og skyldur aukist í takt við aukið flækjustig en mikilvægi íþrótta í samfélaginu hefur aukist jafnt og þétt með breyttum aðstæðum, aukinni kyrrsetu og aukinnar þekkingu á mannslíkamanum og hvað þarf til svo hver einstaklingur megi njóta sem bestra lífsgæða út ævina.

„Það læra börnin sem fyrir þeim er haft” og rannsóknir sýna glöggt að þær fyrirmyndir sem börn eiga í foreldrum sínum og forsjáraðilum hafa einna mestu áhrif á hreyfihegðun barna og ungmenna af öllum þeim þáttum sem til koma. Ef foreldrar og forsjáraðilar eru virkir, stunda reglubunda hreyfingu, útivist og holla lífshætti þá eykur það stórlega líkurnar á að börn og ungmenni feti sömu leið og temji sér heilbrigðan lífsstíl. Hvatinn er óumdeilanlegur og því mikilvægt að taka stefnuna í átt til heilbrigðra lífshátta snemma í lífinu.

Síðastliðið ár hefur verið erfitt á margan hátt en skilur einnig eftir sig lærdóm á mörgum sviðum, sem komandi kynslóðir eiga eftir að líta til. Íþróttahreyfingin hefur þurft að aðlaga sig aðstæðum sem engan gat órað fyrir að kæmu upp og hefur hreyfingin sýnt og sannað enn einu sinni að hún stendur af sér flesta storma og kemur jafnvel enn sterkari undan þeim. Það er ástæða til að hrósa og þakka öllum einingum íþróttahreyfingarinnar, hvort heldur er um að ræða sérsambönd, íþróttahéruð, íþrótta- og ungmennafélög eða deildir þeirra, sem og öllum þeim sjálfboðaliðum sem að starfinu koma, fyrir frábært starf á erfiðum tímum. Þrautseigja, lausnamiðuð stjórnun og ekki síst þolinmæði eru orð sem koma upp í hugann þegar horft er til baka en líklega nær orðið samstaða þó best utan um íþróttastarfsemina síðustu mánuðina.

Stjórnvöld hafa stutt vel við bakið á íþróttahreyfingunni í landinu, ekki síst síðustu áratugina og hafa haft skilning á því mikilvæga starfi sem unnið er í hreyfingunni á landsvísu. Velvilji og stuðningur stjórnvalda hefur komið skýrt fram á tímum kórónuveirufaraldursins, nú síðast með úrræði sem verður á forræði Vinnumálastofnunar og lýtur að greiðslum til lögaðila innan ÍSÍ vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna á tímum faraldursins. Þetta úrræði, sem gildir um tímabilið 1. október 2020 – 31. júní 2021, tekur til þeirra daga sem viðkomandi aðilum innan vébanda ÍSÍ er gert að gera hlé á starfsemi sinni, að hluta til eða að öllu leyti, vegna sóttvarnarráðstafana. Stefnt er að því að opna fyrir umsóknarkerfi þessa úrræðis á vef Vinnumálastofnunar á morgun og eru það gleðitíðindi. Án efa verður mikil hjálp í þessu úrræði fyrir íþróttahreyfinguna í landinu og í öðrum stuðningi stjórnvalda sem samþykktur hefur verið og kemur til úthlutunar á næstunni.

Ég óska okkur öllum til hamingju með daginn með þeim óskum að íþróttahreyfingin megi eflast enn frekar á komandi árum. Ég trúi því að framundan séu bjartir tímar, pakkaðir af skemmtilegum og spennandi íþróttaviðburðum fyrir þjóð sem hefur tekið stefnuna á bætta heilsu og holla lífshætti.

Lárus L. Blöndal, forseti ÍSÍ