Uppbygging á svæði Íþróttafélags Reykjavíkur
Laugardaginn 5. september sl. var knatthús með frjálsíþróttaaðstöðu tekið í notkun í Mjóddinni, á starfssvæði Íþróttafélags Reykjavíkur (ÍR). Við það tækifæri tóku Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Ingigerður H. Guðmundsdóttir formaður ÍR fyrstu skóflustunguna að öðru íþróttahúsi, suðaustan við knatthúsið. Jafnframt verður unnið að lóðaframkvæmdum og gengið frá stórum grænum svæðum til knattspyrnuiðkunar.
Í nýja knatthúsinu er annars vegar gervigrasvöllur á við hálfan knattspyrnuvöll og hins vegar æfingasvæði fyrir frjálsíþróttir, alls rúmir 4.200 fermetrar. Auk þess er tveggja hæða hliðarbygging meðfram suðurhlið salarins upp á 1.100 fermetra en þar verður meðal annars búningsaðstaða og tæknirými. Íþróttahúsið sem tekin var skóflustunga að mun rísa við knatthúsið og verður innangengt á milli bygginganna. Þar er gert ráð fyrir því að stundaðar verði ýmsar íþróttagreinar, svo sem handknattleikur og körfuknattleikur. Í tengibyggingu verða búningsklefar og aðstaða fyrir lyftingar. Byggingin verður á tveimur hæðum, nærri 4.200 fermetrar og þar af verður íþróttasalurinn nær 2.400 fermetrar.
Hafsteinn Pálsson, 2. varaforseti ÍSÍ, sótti viðburðinn fyrir hönd ÍSÍ. Myndir og umfjöllun frá viðburðinum má sjá á heimasíðu Reykjavíkurborgar eða með því að smella hér.
ÍSÍ óskar Íþróttafélagi Reykjavíkur og Reykjavíkurborg innilega til hamingju með knatthúsið og áfangann að byggingu nýja íþróttahússins. Þessi mannvirki munu án efa hafa mikil og góð áhrif á starfið hjá félaginu og gefa ný tækifæri fyrir íþróttir að vaxa og dafna enn frekar í Breiðholtinu.