Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

28

Samstaða hjá ÍA í samkomubanni

14.05.2020

„Við hjá Íþróttabandalagi Akraness (ÍA) höfum orðið vitni að mikilli samvinnu, elju og hugmyndaauðgi þjálfara, iðkenda og stjórnenda í ástandinu sem ríkt hefur í samfélaginu sl. vikur. ÍA lagði áherslu á að halda uppi þróttmiklu starfi innan þess ramma sem okkur var settur þannig að iðkendur okkar væru tilbúnir þegar hefðbundnar íþróttaæfingar færu af stað á nýjan leik“, segir Hildur Karen Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri ÍA þegar hún var spurð að því hvernig ÍA og þau 19 aðildarfélög sem saman mynda ÍA, hefðu tekið á samkomubanninu og afleiðingum Covid faraldursins á íþróttastarf.

Það hefur ýmislegt verið í gangi í tengslum við starfsemi ÍA á síðastliðnum vikum. Umhverfisdagur ÍA og Akraneskaupstaðar fór fram og var frábær þátttaka. Fjölskyldur plokkuðu rusl um allan bæ og skiluðu góðu dagsverki. Einnig fór ÍATV af stað með þættina „Að koma saman er bannað“, sem eru viðtalsþættir í beinni útsendingu. Nafnið á þáttunum er skemmtileg samkomubannsskírskotun í slagorð ÍA sem eru Að koma saman er byrjun, að vera saman eru framfarir, að vinna saman er árangur. Aðdragandinn að þessari þáttagerð var ekki langur, en hugmyndin er sprottin af skorti á íþróttaviðburðum á Akranesi og þ.a.l. verkefnum fyrir ÍATV. Þættirnir eru nú átta talsins og er þá að finna hér á Youtube-rás ÍATV.

Af íþróttamannvirkjum á Akranesi er það helst að frétta að nýtt fimleikahús er langt komið, en framkvæmdir við húsið hófust í ágúst 2018. Um er að ræða nýbyggingu á fimleikasal sem er 1640 m² að stærð, við hliðina á Íþróttahúsinu við Vesturgötu. Stefnt er að því að hægt verði að hefja starfsemi í húsinu í ágúst. Í salnum er steypt áhorfendastúka en rými undir henni verður síðan nýtt undir sturtur fyrir núverandi búningsklefa sem fyrir eru í íþróttahúsinu. Búningsklefar í eldri byggingu íþróttahússins hafa verið endurnýjaðir sem og anddyri, kennslurými og skrifstofa Fimleikafélags Akraness.

Vefsíðu Íþróttabandalags Akraness má sjá hér.

ÍA er á facebook hér.

Myndir með frétt