Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

20

Virkur ferðamáti

08.05.2020

Á setningarhátíð Hjólað í vinnuna þann 6. maí sl. kom það skýrt fram hvað verkefnið Hjólað í vinnuna hefur mikið að segja fyrir samfélagið. Þátttakendur hreyfa sig mikið og sumir mun meira en vanalega. Hreyfing og útivist er frábær leið til vellíðunar og betri andlegrar heilsu og sem forvörn gegn lífsstílstengdum sjúkdómum. Að hreyfa sig á vistvænan og virkan hátt hefur jákvæð áhrif á umhverfið og einnig sparar það heilbrigðiskerfinu þó nokkurn pening.

Á vefsíðu Hjólað í vinnuna má fylgjast með fréttum varðandi verkefnið og einnig er þar að finna ýmsan fróðleik, efni til að deila á samfélagsmiðlum eða rafrænt á vinnustað og stöðu keppninnar. Þeir sem nota Strava eða Runkeeper til að halda utan um sína hreyfingu geta á auðveldan hátt hlaðið niður upplýsingum um hreyfinguna beint í Hjólað í vinnuna skráningarkerfið.

Hægt er að skrá sig til leiks hér.

Þátttakendur Hjólað í vinnuna eru sjálfkrafa með í skráningarleik Hjólað í vinnuna og Rásar2. Vinningshafar í skráningarleiknum verða dregnir út í þættinum Morgunverkin á Rás2. Liðsstjórar geta einnig unnið góða vinninga frá Erninum í liðsstjóraleiknum.

ÍSÍ og Hjólað í vinnuna hvetja alla til að deila myndum tengdum verkefninu á Facebook og Instagram með myllumerkinu #hjoladivinnuna og merkja þær @isiiceland til að eiga möguleika á að vinna flotta hjálma í myndaleiknum sem er í boði Nutcase á Íslandi. Besta myndin verður tilkynnt í lok verkefnisins þann 26. maí. Allir vinningshafar verða einnig tilkynntir á vefsíðu Hjólað í vinnuna. 

ÍSÍ hvetur fólk til þess að nýta sér virkan ferðamáta eins oft og kostur er og hvetja sitt nærumhverfi til þess að gera slíkt hið sama.

Vefsíða Hjólað í vinnuna

Facebook síða Hjólað í vinnuna

Instagram síða Hjólað í vinnuna

Instagram síða ÍSÍ

Myndin með fréttinni er frá setningu Hjólað í vinnuna sem fram fór í Þróttaraheimilinu í Laugardal. 

Á myndinni má sjá frá vinstri: Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur, Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ, Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra, Hafsteinn Pálsson annar varaforseti ÍSÍ, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ og Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn.