4. Þríþrautarþing ÞRÍ
Þríþrautarþing Þríþrautarsambands Íslands (ÞRÍ) fór fram í fjórða sinn þann 29. febrúar sl. Dagskrá þingsins var hefðbundin samkvæmt lögum ÞRÍ. Kjörinn var nýr formaður, Valerie Maier, til tveggja ára. Í aðalstjórn voru Guðbjörg Jónsdóttir og Helgi Sigurgeirsson kjörin til tveggja ára og Hákon Hrafn Sigurðsson til eins árs. Í varastjórn voru Ingi B. Poulsen, Sigurjón Ólafsson og Sædís Jónsdóttir kjörin til eins árs. Áfram situr í aðalstjórn Aðalsteinn Friðriksson, kjörinn til tveggja ára á 3. þríþrautarþingi sem haldið var 2019. Fráfarandi úr stjórn eru Halldóra Gyða Matthíasdóttir Proppé formaður, Sarah Cushing aðalstjórn og Ragnar Haraldsson varastjórn. Hafsteinn Pálsson, annar varaforseti ÍSÍ, var þingforseti. Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ ávarpaði þingið.
Á þinginu var meðal annars kynnt ný reglugerð um félagaskipti. Dómara- og mótanefnd kynnti uppfærðar keppnisreglur sem teknar verða í gildi á næstunni og borin fram tillaga að breyttu stigakerfi í bikarkeppni ÞRÍ. Einnig var kynnt nýlega uppfærð afreksstefna ÞRÍ og teknar fyrir tillögur frá Ægi um breytingar á afreksstefnu ÞRÍ. Meirihluti þings kaus gegn breytingartillögum á afreksstefnu.