Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

20.09.2024 - 21.09.2024

Ársþing SKÍ 2024

Ársþing Skíðasambands Íslands verður haldið...
10.10.2024 - 10.10.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
15

Íslenskt frjálsíþróttafólk í Bandaríkjunum

19.02.2020

Fjöldi íslensks frjálsíþróttafólks stundar nám og keppir fyrir bandaríska háskóla. Innanhúss tímabilið þar er nú í fullum gangi og er okkar fólk að gera flotta hluti. Margir hafa verið að bæta sín persónulegu met, aldursflokkamet og færast ofar á íslenska afrekalistanum.

Vigdís Jónsdóttir hefur bætt sig nokkrum sinnum í lóðkasti síðustu vikur og á hún besta árangur Íslendings frá upphafi í greininni. Nú síðast kastaði hún 18,04 metra á Music City Challenge mótinu sem fór fram við Vanderbilt háskóla í Nashville í Tennessee. Fyrir mótið átti hún 19. besta árangur keppenda en endaði í 13. sæti af 35 keppendum.

Trausti Þór Þorsteins setti aldursflokkamet í míluhlaupi þegar hann kom í mark á 4:04,11 mínútum og bar sigur úr býtum. Trausti Þór keppir fyrir Wagner háskóla í New York. Fyrir átti Trausti Þór best 4:05,58 mínútur og var það besti árangur Íslendings frá upphafi í nokkra daga eða þar til Hlynur Andrésson hljóp nýlega hraðar.

Erna Sóley Gunnarsdóttir sigraði í kúluvarpi með 15,72 metra kasti á Howie Ryan boðsmótinu í Houston háskóla. Hún var í öðru sæti af tuttugu keppendum fyrir síðustu umferð er hún skilaði Rice háskóla sigri með besta kasti dagsins í síðustu tilraun. Erna Sóley á best 16,19 metra sem er Íslandsmetið í greininni innanhúss.

Baldvin Þór Magnússon bætti aldursflokkamet pilta 20-22 ára í 3.000 metra hlaupi innanhúss. Tími hans var 8:03,28 mínútur og kom hann annar í mark á Meyo boðsmótinu. Fyrra metið var 8:10,94 mínútur og setti Kári Steinn Karlsson það fyrir þrettán árum síðan. Aðeins Íslandsmethafinn Hlynur Andrésson hefur hlaupið hraðar. Baldvin náði einnig góðum árangri í 5.000 metra hlaupi innanhúss þegar hann varð í öðru sæti á Stórmóti Grand Valley State háskóla í Allendale, Michigan þar sem hann keppti fyrir Eastern Michigan háskóla. Tími hans var 14:14,14 mínútur og er það þriðji besti árangur Íslendings frá upphafi. Aðeins Hlynur Andrésson og Kári Steinn Karlsson hafa hlaupið hraðar.

Kolbeinn Höður Gunnarsson hefur átt frábært tímabil og hefur hlaupið vel bæði í 60 metrum og 200 metrum. Á dögunum hljóp Kolbeinn sitt annað besta 200 metra hlaup frá upphafi þegar hann sigraði á KMS boðsmótinu í Birmingham í Alabama. Hann kom í mark á 21,37 sekúndum en Íslandsmet hans í greininni er 21,32 sekúndur. Hann bætti sig svo tvöfalt í 60 metra hlaupi. Í undanúrslitum hljóp Kolbeinn á 6,93 sekúndum og í úrslitum hljóp hann enn hraðar, eða á 6,91 sekúndu. Kolbeinn er á sínu síðasta keppnisári með Memphis háskóla í Tennessee.

Fréttin birtist á vefsíðu Frjálsíþróttasambands Íslands (FRÍ) hér.

Myndir með frétt