Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26.07.2024 - 28.11.2019

París 2024

Ólympíuleikarnir fara fram í París í...
27.07.2024 - 13.08.2024

Keppni í 100 m...

Anton Sveinn McKee keppir í 100 m bringusundi...
20

Alfreð Gíslason í Heiðurshöll ÍSÍ

28.12.2019

Í kvöld, þann 28. desember, á hófi Íþróttamanns ársins 2019, var Alfreð Gíslason útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ. Alfreð er nítjándi einstaklingurinn sem ÍSÍ útnefnir í höllina.

Alfreð Gíslason er fæddur þann 7. september árið 1959. Alfreð átti farsælan feril sem handknattleiksleikmaður. Hann varð bikarmeistari með KR árið 1982 og Bidasoa Irún á Spáni árið 1991. Hann varð einnig tvisvar sinnum þýskur meistari með TUSEM Essen. Alfreð var burðarás í landsliði Íslands, en hann lék 190 leiki fyrir íslenska landsliðið í handknattleik og skoraði í þeim 542 mörk. Hann var valinn besti leikmaður B-keppninnar í Frakklandi 1989 þar sem Ísland fór með sigur af hólmi. Alfreð var kjörinn Íþróttamaður ársins árið 1989. 

Alfreð þjálfaði uppeldisfélag sitt, KA, í sex ár. Hann gerði KA að bikarmeisturum 1995 og 1996, deildarmeisturum 1996 og Íslandsmeisturum 1997. Því næst fór Alfreð til Þýskalands þar sem hann þjálfaði samfleytt í 22 ár. Fyrst hjá Hameln í tvö ár, en tók við Madgeburg árið 1999 og þjálfaði þar í sjö ár. Hann gerði Magdeburg að þýskum meisturum og EHF-bikarmeisturum 2001 og ári seinna vann liðið Meistaradeild Evrópu. Á árunum 2006 til 2008 þjálfaði Alfreð Gummersbach. Hann var landsliðsþjálfari Íslands 2006 til 2008 og stýrði íslenska liðinu á HM 2007 og EM 2008. Árið 2008 tók Alfreð við Kiel. Undir hans stjórn varð Kiel sex sinnum þýskur meistari, sex sinnum bikarmeistari, vann Meistaradeild Evrópu tvisvar sinnum og EHF-bikarinn einu sinni.

Það er ÍSÍ mikill heiður að útnefna Alfreð Gíslason í Heiðurshöll ÍSÍ.

Alfreð Gíslason - Heiðurshöll ÍSÍ

Myndir með frétt