Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

12

Markviss hreyfiþjálfun barna

10.12.2019

Í nýjasta blaði ÍSÍ frétta er umfjöllun um eitt af þeim verkefnum sem á hug Önnu Karólínu Vilhjálmsdóttur allan og kallast YAP (Young Athlete Program). Anna Lína, eins og hún er alltaf kölluð, er menntaður íþróttakennari frá Laugarvatni og B.ED frá KHÍ auk framhaldsmenntunar við DHL/KU og MPM við HÍ. Hún hefur starfað hjá Íþróttasambandi fatlaðra (ÍF) í að verða 30 ár sem framkvæmdastjóri Special Olympics á Íslandi og þróunarsviðs ÍF. Hún hefur í sínu starfi stutt við og eflt íþróttaiðkun fatlaðra, m.a. komið af stað nýjum hugmyndum og þróað nýjar greinar og búnað. Þá hefur hún hugsað út fyrir rammann, leitast eftir nýjungum í tækni og hrint því í framkvæmd að enn fleiri tækifæri yrðu opnuð á íþróttasviðinu fyrir einstaklinga með fötlun eða frávik.

YAP er alþjóðlegt verkefni á vegum Special Olympics samtakanna, en markmiðið með YAP er að stuðla að markvissri hreyfiþjálfun barna á aldrinum 2 til 7 ára. YAP er í grunninn hreyfiþjálfun en nýtist einnig sem verkfæri sem tengir saman hreyfiþjálfun og t.d. stærðfræði og lestur. Æfingarnar sem unnið er með taka fyrir ákveðna þætti sem fylgt er eftir og markviss nálgun nær fram markverðum árangri. Innleiðing ÍF á YAP á Íslandi hófst árið 2015, en Anna Lína hefur síðan þá ferðast um landið og kynnt verkefnið ásamt Ástu Katrínu Helgadóttur, íþróttakennara á Skógarási Ásbrú.

Helsti samstarfsaðili ÍF á innleiðingu YAP er Heilsuleikskólinn Skógarás, Ásbrú en þar hafa verið gerðar rannsóknir á áhrifum innleiðingar YAP á leikskólastarfið. Markviss hreyfiþjálfun er til staðar í mörgum leikskólum, en það sem YAP gengur út á er að setja upp „gleraugu“ sem fókusa á barnið út frá hreyfifærni og hreyfiþroska og ef ástæða er til að bregðast við að gera það strax með einföldum aðferðum. Öll börn falla þar undir en börn með frávik eru markhópur sem mikilvægt er að ná til eins snemma og hægt er og þar er YAP einfalt verkfæri sem allir geta nýtt til að bregðast við.

Allt fræðsluefni YAP er ókeypis
Verkefnið byggir á æfingaáætlun og árangursmælikvarða. Á Skógarási er YAP verkefnið nýtt fyrir alla nemendur en sérstakur markhópur eru nemendur með slaka hreyfifærni, hegðunarvandkvæði, vanvirkni eða óöryggi og tvítyngdir nemendur. Niðurstaða rannsókna sýna miklar framfarir nemenda á sviði hreyfifærni og félagslegra samskipta. Einnig hafa niðurstöður sýnt aukna vellíðan, sjálfsöryggi, gleði, sjálfsstjórn og tjáningu. Allt fræðsluefni tengt YAP er á netinu hér og er ókeypis aðgengi að því.

Kynningardagur YAP á Vestfjörðum
Þann 19. nóvember sl. kynntu Anna Lína og Ásta Katrín YAP verkefnið á Vestfjörðum. Kynningin fór fram í leikskólanum Glaðheimum, Bolungarvík. Þegar að slíkur kynningardagur fer fram er sett upp þrautabraut og börnin taka virkan þátt í öllum æfingum sem hver og ein miðar að því að þjálfa ákveðna þætti. Fulltrúar leikskóla á svæðinu fylgdust með í þetta sinn og síðan fóru fram umræður um verkefnið. Vonast er til þess að YAP verði innleitt í leikskólum á svæðinu.

Hér má sjá íslenskt kynningarmyndband um YAP.

Munur á almennri hreyfingu og markvissri hreyfiþjálfun
Þó YAP verkefnið nýtist öllum börnum hefur það mest áhrif til framtíðar fyrir börn með sérþarfir og frávik. Rannsóknir á sviði hreyfiþroska sýna að snemmtæk íhlutun á því sviði er mikilvæg og rannsóknir í heilsuleikskólanum Skógarási, Ásbrú hafa sýnt jákvæð áhrif samþættingar á sviði hreyfiþroska, málþroska og félagsfærni. Allt vinnur þetta saman og er jafn mikilvægt. Forsenda árangurs er að litið sé á hreyfiþjálfun út frá faglegri nálgun og að gerður sé greinarmunur á frjálsum leik eða almennri hreyfingu og markvissri hreyfiþjálfun með mælanlegum árangri og markmiðssetningu, ekki síst ef skertur hreyfiþroski er til staðar. YAP verkefnið getur verið aðlagað að því starfi sem fyrir er á hverjum stað og nýtt á margvíslegan og ólíkan hátt, allt eftir því hvað hentar á hverjum stað.
Hér er um að ræða verkefni sem getur reynst mikilvæg forvörn og styrkt börn til framtíðar. Anna Lína vonast eftir því að tækifæri skapist til að koma á fót samstarfi milli leikskóla þar sem sérfræðiþekking á sviði hreyfiþjálfunar og útiæfinga nýtist sem flestum börnum á hverju svæði. YAP getur einnig styrkt börn til að takast á við það umhverfi sem skapast þegar komið er úr leikskóla í grunnskóla og fyrstu skref stigin inn á vettvang íþróttanna.

Áhugasamir leikskólastjórar og sérkennslustjórar geta haft samband við Önnu Línu hjá Íþróttasambandi fatlaðra. 

Hér má sjá umfjöllun um YAP í ÍSÍ fréttum.

Myndir með frétt