Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

18.04.2024 - 18.04.2024

Ársþing ÍA 2024

Ársþing Íþróttabandalags Akraness (ÍA) verður...
18.04.2024 - 18.04.2024

Ársþing ÍS 2024

Ársþing Íþróttabandalags Suðurnesja (ÍS)...
14

Jafnt kynjahlutfall á Vetrarólympíuleikum ungmenna

20.11.2019

Í dag eru 50 dagar þar til þriðju Vetrarólympíuleikar ungmenna (YOWG) verða settir í Lausanne í Sviss. Leikarnir standa yfir frá 9. - 22. janúar 2020. Keppnisdagskráin er klár, en á þeim 13 dögum sem keppnin fer fram eru 81 viðburður á dagskrá og er um að ræða átta keppnisstaði. 1880 íþróttamenn munu taka þátt og kynjahlutfall er jafnt. 940 konur og 940 karlar, munu etja kappi á leikunum. Verða þetta fyrstu vetrarleikarnir á vegum Alþjóðaólympíunefndarinnar með jafnt kynjahlutfall keppenda. 

Lukkudýr leikanna er Yodli, dýr sem er samsett úr dýrum sem lifa í svissnesku fjöllunum; kú, geit og St Bernards hundur. Mismunandi persónueinkenni þeirra og samband við umhverfið sameinast í Yodli, en því er ætlað að lýsa fjölbreytileika þátttakenda á Vetrarólympíuleikunum 2020. Liturinn á Yodli er blár eins og himininn og vötnin í Sviss og grár eins og bergið í fjöllunum. Guli liturinn stendur fyrir svissneska ostinn og sólina sem skín skært í svissnesku ölpunum. Yodli varð til hjá nemendum í listum, sem teiknuðu nokkrar týpur af lukkudýrum. Yngri nemendur í Lausanne fengu síðan að velja lokaútlitið á lukkudýrinu.

Íslendingar munu eiga fulltrúa á leikunum, en hverjir það eru kemur í ljós á næstu vikum. 

Vefsíðu leikanna má sjá hér.

Um Ólympíuleika ungmenna
Ólympíuleikar ungmenna eru ætlaðir fyrir ungt afreksfólk í íþróttum á aldrinum 15 til 18 ára. Keppt er í mörgum greinum og skiptast leikarnir í sumarleika og vetrarleika eins og Ólympíuleikarnir. Hugmyndina á Jacues Rogge forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar og var hún kynnt til sögunnar árið 2001. Fyrstu vetrarleikarnir fóru fram 2012 í Innsbruck í Austurríki og aðrir leikarnir í Lillehammer í Noregi 2016. Ísland hefur í bæði skiptin sent þátttakendur á leikana. 

Myndir með frétt