Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

26.07.2024 - 28.11.2019

París 2024

Ólympíuleikarnir fara fram í París í...
27.07.2024 - 13.08.2024

Keppni í 100 m...

Anton Sveinn McKee keppir í 100 m bringusundi...
21

Ný hlutverk stækka sjóndeildarhringinn

25.06.2019

Smáþjóðaleikarnir fóru fram í Svartfjallalandi nýverið. Tæplega 190 manns fóru á vegum Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands á leikana að þessu sinni. Þórey Edda Elísdóttir, Ólympíufari í stangarstökki, og Ingi Þór Ágústsson, sundmaður sem margoft keppti á Smáþjóðaleikum, voru í hópi íslenskra þátttakenda á leikunum, en þau sitja bæði í framkvæmdastjórn ÍSÍ. Aðspurð segir Þórey Edda það tvennt ólíkt að fara á Smáþjóðaleika sem keppandi eða sem stjórnarkona.

„Sem keppandi var ég algjörlega í mínum eigin heimi þótt ég nyti þess auðvitað líka að hitta annað landsliðsfólk. Flest sem ég gerði var samt fyrst og fremst ætlað að skapa sem bestan árangur hjá mér sjálfri. Sem stjórnarkona er ég stödd í allt öðrum tilgangi. Það snýst mest um að fylgjast með íþróttafólkinu okkar á leikunum“. Ingi Þór tekur í sama streng og segir virkilega ánægjulegt að hafa verið á Smáþjóðaleikunum. „Mér finnst vera stór munur á því að vera keppandi á Smáþjóðaleikum og svo í þessu hlutverki sem ég var í núna. Sem keppandi býr maður í sinni bólu, hefur sitt stuðningsnet í kringum sig og er lítið að velta því fyrir sér hvernig aðrir eru að haga sínum undirbúningi að keppni. Í gegnum mína reynslu sem íþróttamaður hef ég góðan skilning á aðstæðum íþróttamannsins að mínu mati,“ segir Ingi Þór.

„Það var mjög gaman og fróðlegt að fá tækifæri til að kynnast öllu því frábæra íþróttafólki sem var á þessum leikum sem og því stuðningsneti sjúkraþjálfara, liðsstjóra og aðstandenda sem fylgdu þeim. Það veitir mér sem stjórnarmanni og nefndarmanni í fagráði Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ dýpri skilning á þeim þörfum og kröfum sem hinar mismunandi íþróttagreinar gera á hverjum tíma til að sinna íþróttafólkinu. Í ferðinni náði ég að fylgjast með keppni í öllum þeim íþróttagreinum sem keppt var í og ræða við aðila er þeim tengjast. Einnig hafði ég tækifæri til að kynnast keppendum og fylgdarmönnum frá öðrum þjóðum og þá er hægt að bera saman hvað er verið að gera þar í afreksuppbyggingu“, segir Ingi Þór. Þórey Edda segir að framkvæmdastjórn ÍSÍ fjalli mikið um íþróttafólkið og íþróttagreinarnar og þá sérstaklega innan Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ þar sem hún gegnir embætti formanns fagráðs sviðsins. „Mér fannst frábært að geta horft framan í andlitin sem tengjast nöfnunum og íþróttagreinunum. Mér fannst einnig frábært að geta fylgst með hinum ýmsu íþróttagreinum sem ég hef ekki mikið getað fylgst með í beinni. Ég tel að þetta tækifæri að hafa fengið að fara sem stjórnarkona til að fylgjast með leikunum muni hjálpa mér í störfum mínum fyrir ÍSÍ,“ segir Þórey Edda.