Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

20.09.2024 - 21.09.2024

Ársþing SKÍ 2024

Ársþing Skíðasambands Íslands verður haldið...
10.10.2024 - 10.10.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
15

Bronsverðlaun hjá blaklandsliði kvenna

01.06.2019

Kvennalandsliðið í blaki spilaði sinn síðasta leik á Smáþjóðaleikunum í dag við gestgjafana Svartfjallaland. Með sigri gátu Svartfellingar tryggt sér gull á leikunum. Með íslenskum sigri var möguleiki á silfri, en bronsið var tryggt fyrir leikinn.

Íslenska kvennaliðið hefur þrisvar áður fengið verðlaun á Smáþjóðaleikunum. Silfur 1997 á Íslandi, brons 2009 á Kýpur og brons á Íslandi 2015.

Svartfjallaland er í 23. sæti evrópska styrkleikalistans, en Ísland í því 40. þannig að fyrirfram var búist við erfiðum leik. Byrjunarlið Íslands var skipað þeim Jónu Guðlaugu Vigfúsdóttur og Huldu Elmu Eysteinsdóttur á köntunum, Gígju Guðnadóttur og Særúnu Birtu Eiríksdóttur á miðjunum, Ana Maria Vidal Bouza í uppspili, Thelmu Dögg Grétarsdóttur í díó og Birtu Björnsdóttur í stöðu frelsingja.

Svartfjallaland náði fljótlega forskoti í fyrstu hrinu en íslensku stelpurnar héngu í þeim. Í stöðunni 12:8 tók Borja leikhlé. Það dugði ekki til og áfram juku gestgjafarnir við forskotið og voru 17:9 yfir þegar síðara leikhléið var tekið. Svartfjallaland vann hrinuna 25:13.

Í annarri hrinu byrjaði Matthildur Einarsdóttir inn á fyrir Önu Mariu og Helena Kristín Gunnarsdóttir fyrir Elmu. Ísland hélt einu til tveggja stiga forskoti í byrjun hrinunnar þangað til Svartfellingar jöfnuðu og komust yfir 10:9. Ísland tók fyrsta leikhlé hrinunnar þegar Svartfellingar voru yfir 15:12 og síðara leikhléið 22:18. Svartfellingar unnu hrinuna 25:19.

Í þriðju hrinu byrjaði sama lið og í hrinu tvö. Aftur byrjuðu stelpurnar okkar betur og voru yfir þangað til að Svartfellingar jöfnuðu 7:7 og komust yfir. Stelpurnar okkar jöfnuðu síðan 10:10 og komust yfir. Eftir það skiptust liðin á stigum þangað til stigin urðu fleiri hjá andstæðingunum. Íslenska liðið tók leikhlé í stöðunni 19:16. Leikhléið skilaði sínu og þær jöfnuðu 19:19 þegar Svartfjallaland tók leikhlé. Lokamínútur leiksins voru æsispennandi en enduðu með sigri Svartfjallalands 25:21.

Stigahæst í liðinu var Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir með 15 stig.

Stelpurnar hafa spilað mjög vel á mótinu og flott hjá þeim að hafa tryggt sér bronsverðlaunin í dag.

Myndir með frétt