Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

25.10.2024 - 26.10.2024

Landsþing LH 2024

Ársþing Landssambands hestamannafélaga verður...
01.11.2024 - 30.11.2024

Syndum

Verkefnið Syndum hefst 1. nóvember og stendur...
21.11.2024 - 21.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
15

Þriðji keppnisdagur á Smáþjóðaleikunum - Samantekt

30.05.2019

Tennis

Sólin lét loksins sjá sig, á þriðja keppnisdegi Smáþjóðaleikanna. Tenniskeppnin gat hafið göngu sína því allir vellir voru þurrir og veðrið gott. Birkir Gunnarsson keppti við Omar Sudzuka frá Möltu í morgun í 16. liða úrslitum í tenniskeppni Smáþjóðaleikanna. Leikurinn var æsispennandi. Birkir tapaði fyrstu lotu 3:6, en vann síðan næstu tvær 6:2 og 6:4. Birkir keppti síðan aftur einliðaleik í dag, í átta liða úrslitum, og tapaði þá fyrir Lucas Catarina 2:0. Hera Björk Brynjarsdóttir tapaði 2:0 fyrir keppanda frá Lúxemborg, Marie Anne Weckerle. Anna Soffía Grönholm keppti við Danae Petroula frá Mónakó í gær þar sem hún tapaði fyrstu lotu. Hún var yfir í annarri lotu þegar að stoppa þurfti leikinn vegna rigningar. Leikurinn fór 2:0 fyrir Petroula (6:1, 7:6).
Rafn Kumar tapaði í 8 manna úrslitum við Romain Arneodo frá Mónakó í dag 2:0. Birkir og Rafn spiluðu saman tvíliðaleik á móti Lúxemborg og töpuðu leiknum 2:0 (6:4, 6:1). Anna Soffía og Hera Björk spiluðu tvíliðaleik á móti Möltu og töpuðu leiknum 2:0.

Borðtennis
Íslensku pörin í tvíliðaleik töpuðu leikjum sínum 0-3 í riðlakeppninni í tvíliðaleik og komust ekki upp úr riðlunum. Agnes Brynjarsdóttir og Stella Karen Kristjánsdóttir léku í tvíliðaleik kvenna en nafnarnir Magnús Gauti Úlfarsson og Magnús Jóhann Hjartarson í tvíliðaleik karla.
Keppni í tvíliðaleik kláraðist í dag, 30. maí, og sigraði Mónakó tvöfalt. Karlaliðið sigraði lið Kýpur 3-2 og kvennaliðið lagði lið Lúxemborg, sömuleiðis 3-2.
Úrslit úr leikjum íslensku paranna; Agnes og Stella léku í B-riðli með Kýpur, Montenegro og San Marínó. Agnes/Stella – Szenana Culafic/Ivona Petric, Montenegro 0-3 (5-11, 6-11, 8-11). Agnes/Stella – Chiara Morri/Chimei Yan, San Marínó 0-3 (3-11, 3-11, 5-11).
Magnús/Magnús – Eric Glod/Gilles Michely, Lúxemborg 0-3 (8-11, 5-11, 4-11). Magnús/Magnús – Filip Radulovic/Filip Radovic, Montenegro 0-3 (8-11, 8-11, 4-11)
Þann 31. maí og 1. júní verður keppt í einliðaleik á leikunum.

Blak
Karlalandslið Íslands í blaki mætti Lúxemborg í dag á Smáþjóðaleikunum. Fyrir leikinn hafði íslenska liðið tapað tveimur leikjum á móti Svartfjallalandi 3:1 og San Marínó 3:0. Lúxemborg vann Mónakó 3:1 og tapaði fyrir Svartfjallalandi 3:0. Fyrsta hrina fór jafnt af stað og liðin skiptust á stigum. Þegar Lúxemborg var komið 13:11 yfir, tók íslenska liðið leikhlé. Íslenska liðið náði ekki að vinna upp forskotið á meðan Lúxemborg gaf í og kláraði hrinuna 25:16.
Önnur hrina fór svipað af stað og sú fyrsta, þangað til Lúxemborg fór hægt og bítandi að síga fram úr. Strákarnir okkur hleyptu þeim þó aldrei of langt frá sér og jöfnuðu 13:13 og komust svo yfir. Þeir héldu forskotinu og í stöðunni 20:17 tók Lúxemborg leikhlé. Íslensku strákarnir héldu forystunni og unnu hrinuna 26:24. Sama var upp á teningnum í 3. og 4. hrinu þegar að liðin byrjuðu mjög jöfn, en um miðja hrinu gaf Lúxemborg í og vann báðar hrinurnar 25:17.
Stigahæstir í liðinu voru Alexander Arnar Þórisson með 14 stig og Theódór Óskar Þorvaldsson með 12 stig. Liðið mætir Mónakó á morgun kl.16:00 (14:00 ísl).
Kvennalandsliðið í blaki spilaði sinn þriðja leik í dag á Smáþjóðaleikunum í Svartfjallalandi. Fyrir hafði liðið tapað 3:0 gegn gestgjöfunum og unnið San Marínó 3:0. Lúxemborg tapaði 3:0 fyrir San Marínó og vann Liechtenstein 3:1. Byrjunarliðið í dag var skipað þeim Jóna Guðlaugu Vigfúsdóttur og Helenu Kristínu Gunnarsdóttur á köntunum, Gígju Guðnadóttur og Söru Ósk Stefánsdóttur á miðjunum, Thelmu Dögg Grétarsdóttur í díó, Ana Maria í uppspil og Kristina Apostolova var í stöðu frelsingja.
Fyrsta hrina fór jöfn af stað en Ísland leiddi yfirleitt með 1-2 stigum. Þangað til að Lúxemborg komst yfir 10:8. Borja tók leikhlé í stöðunni 12:9 þegar mistökin voru orðin of mörg. Þó nokkuð vantaði upp á sóknarleik okkar kvenna í hrinunni og tók Borja síðara leikhléð í 16:10 fyrir Lúxemborg. Í stöðunni 18:10 gerði Borja tvöfalda skiptingu þegar að Birta og Hjördís komu inn á fyrir Valal og Thelmu. Síðar kom Elma inn á fyrir Jónu. Ekkert virtist ganga upp í hrinunni og kláraði Lúxemborg hrinuna 25:12.
Íslensku stelpurnar komu af miklum krafti inn í aðra hrinu og náðu fljótlega góðu forskoti, 15:10 þegar Lúxemborg tók leikhlé. Í stöðunni 17:10 fyrir Ísland kom góður kafli hjá Lúxemborg sem kláraði hrinuna 25:22.
Í þriðju hrinu sýndi íslenska liðið frábæra spilamennsku og hélt forystu frá upphafi til enda og vann hrinuna 25:17. Lið Lúxemborgar kom ákveðið til leiks í 4. hrinu og var yfir 8:5 þegar Borja tók leikhlé. Stelpurnar okkar jöfnuðu 10:10 og voru 20:17 yfir þegar Lúxemborg tók leikhlé. Íslenska liðið gaf þá í og kláraði hrinuna 25:21.
Ísland byrjaði oddahrinuna mjög vel og komst í 4:1. Þá gaf Lúxemborg í og jafnaði 8:8. Íslenska liðið átti meira eftir á lokametrunum og kláraði hrinuna 15:11 eftir æsipennandi lokamínútur og þar með leikinn 3:2. Fyrirliðinn Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir var stigahæst í leiknum með 26 stig. Liðið mætir Liechtenstein í fyrramálið kl.9:00 (07:00 ísl).

Skotíþróttir
Keppendur í loftskammbyssu hófu keppni í dag, þau Ásgeir Sigurgeirsson, Jórunn Harðardóttir og Ívar Ragnarsson. Íslensku karlarnir komust áfram úr undankeppninni í loftskammbyssu og þar með í 8 manna úrslit. Ásgeir Sigurgeirsson varð annar inn í úrslit með 576 stig og Ívar Ragnarsson þriðji með 561 stig, sem er glæsilegur árangur hjá íslensku strákunum.
Úrslitin fóru svo fram kl. 11:30 að íslenskum tíma. Ásgeir hélt áfram langri sigurgöngu sinni í loftskammbyssu og sigraði með 234.9 stig eftir jafna og harða keppni við Boris Jeremenko frá Mónakó, sem réðst ekki fyrr en í síðasta skotinu. Ásgeir náði þá mjög góðu skoti en Jeremenko ekki. Ívar Ragnarsson varð í fimmta sæti með 169.8 stig.
Jórunn Harðardóttir tók þátt í loftskammbyssu kvenna. Hún endaði í 9. sæti með 539 stig og komst ekki í úrslit.

Frjálsíþróttir
Flottur árangur náðist í frjálsíþróttum í dag. Nánar má lesa um frjálsíþróttakeppnina hér.

Körfuknattleikur
Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik spilaði hörkuleik við Svartfjallaland í dag, en leikurinn endaði á sigri Svartfellinga 86-92. Leikurinn var afar spennandi og náðu Íslendingar að halda vel í við sterkt lið Svartfellinga. Strákarnir hvíla á morgun, en spila síðan við Kýpur á föstudag.
Nánari upplýsingar má sjá á vefsíðu KKÍ innan skamms.

Sund
Síðasta keppnisdeginum af þremur er nú lokið í sundkeppni Smáþjóðaleikanna. Í dag bættust við fimm gullverðlaun, ein silfurverðlaun, sjö bronsverðlaun, Íslandsmet og Landsmet og svo átta bætingar einstaklinga í sínum sundum.
Anton Sveinn McKee fékk gullverðlaun í 100 metra bringusundi um leið og hann bætti eigið Íslandsmet frá því á EM50 í Glasgow 2018. Eygló Ósk Gústafsdóttur fékk gullverðlaun í 50 metra baksundi, Kolbeinn Hrafnkelsson fékk gullverðlaun í 50 metra baksundi, Karen Mist Arngeirsdóttir náði silfurverðlaunum í 100 metra bringusundi, Jóhanna Elín Guðmundsdóttir fékk bronsverðlaun í 50 metra skriðsundi og 50 metra flugsundi ásamt því að bæta tíma sína verulega, Dadó Fenrir Jasminuson fékk bronsverðlaun í 50 metra skriðsundi, Kristinn Þórarinsson náði bronsverðlaunum í 50 metra baksundi, Sunna Svanlaug Vilhjálmsdóttir fékk bronsverðlaun í 100 metra bringusundi, María Fanney Kristjánsdóttir fékk bronsverðlaun í 400 metra fjórsundi auk þess að bæta tíma sinn og Þröstur Bjarnason náði bronsverðlaunum í 200 metra skriðsundi.
Íslensku boðsundssveitirnar í 4x100 metra fjórsundi náðu svo gullverðlaunum bæði í kvenna- og karlaflokki. Karlasveitin bætti 2 ára gamalt Landsmet frá því á Smáþjóðaleikunum í San Marínó árið 2017 um tæpa sekúndu. Í því boðsundi synti Anton Sveinn McKee bringusundslegginn á 59,87 sekúndum.
Að auki bættu tíma sína þau Kristófer Sigurðsson í 50 metra skriðsundi, Kolbeinn Hrafnkelsson í 50 metra flugsundi, Bryndís Bolladóttir og Kristín Helga Hákonardóttir í 200 metra skriðsundi.

Í 4x100 metra fjórsundi/boðsundi keppti íslenska kvennasveitin skipuð þeim Eygló Ósk Gústafsdóttur, Karenu Mist Arngeirsdóttur, Katarínu Róbertsdóttur og Jóhönnu Elínu Guðmundsdóttur. Sveitin kom í mark á tímanum 4:20,16 sem skilaði þeim 1. sætinu og þar með gullverðlaunum.
Í 4x100 metra skriðsund/boðsundi íslenska karlasveitin skipuð þeim Kristni Þórarinssyni, Antoni Sveini McKee, Dadó Fenri Jasminusyni og Kristófer Sigurðssyni. Sveitin kom í mark á tímanum 3:46,63 sem skilaði þeim örugglega í fyrsta sæti. Um leið bættu þeir Landsmetið sem var 3:47,67 sett í San Marínó 2017.
Það var ánægður en þreyttur sundhópur sem kom til gististaðar eftir gjöfulan dag. Fyrir þann sem stendur utan við hópinn er augljóst hversu vel þau vinna saman sem lið og með þeim Mladen Tepacevic og Steindóri Gunnarssyni þjálfurum hópsins, Júlíu Þorvaldsdóttur flokkstjóra og Unni Sædísi Jónsdóttur sjúkraþjálfara.

Ekki höfðu borist úrslit úr júdó.