Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

19

Ársþing Ungmennasambands Borgarfjarðar

08.03.2019

97. sambandsþing Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB) var haldið miðvikudaginn 6. mars í Brautartungu í Lundarreykjardal. Ungmennafélagið Dagrenning sá um framkvæmd þingsins og tók vel á móti þingfulltrúum með góðum veitingum. Dagskrá þingsins var hefðbundin og í samræmi við lög sambandsins. Gestir þingsins, Gunnlaugur Júlíusson sveitarstjóri Borgarbyggðar, Hafsteinn Pálsson ritari ÍSÍ og Guðmundur Sigurbergsson frá UMFÍ ávörpuðu þingið.

Rúnar Hálfdánarson stýrði þinginu og ritarar voru systkinin Bjarnheiður Jónsdóttir og Orri Jónson. Rekstur UMSB skilaði hagnaði og lýstu þingfulltrúar ánægju sinni með niðurstöðuna. Samstaða var um þær tillögur sem afgreiddar voru á þinginu. Sveitarfélögum innan UMSB var sérstaklega þakkaður stuðningurinn og samstarfið á liðnu ári.

Í ársskýrslu UMSB er m.a. að finna samantekt á þátttöku barna og unglinga í íþróttum og tómstundum innan Borgarbyggðar. Fjöldi þeirra sem eru í skipulögðu starfi segir töluvert um það góða starf sem unnið er hjá aðildarfélögum UMSB. Á þinginu var kosið í nýja stjórn UMSB. María Júlía Jónsdóttir, sem verið hefur sambandsstjóri sambandsins síðastliðið ár gaf ekki kost á sér til endurkjörs og var nýr sambandsstjóri kjörinn Bragi Þór Svavarsson. Aðrir í stjórn UMSB eru Guðrún Þórðardóttir varasambandsstjóri, Hafdís Ósk Jónsdóttir vara varasambandsstjóri, Sigríður Bjarnadóttir gjaldkeri, Bjarni Traustason ritari, Rakel Guðjónsdóttir meðstjórnandi, Ástríður Guðmundsdóttir vararitari og Eyjólfur Kristinn Örnólfsson varagjaldkeri.

Framundan eru fjölbreytt, mikilvæg og skemmtileg verkefni hjá sambandinu. Meðal helstu verkefna næstu vikur og mánuði eru Sýnum krakter, Hreyfivika UMFÍ, útfærsla á íþróttahátíð UMSB, undirbúningur þátttöku á Landsmót UMFÍ 50+ ásamt því að undirbúa sumarið. Það má því segja að starfið sé líflegt hjá hinu 107 ára gamla íþróttahéraði, UMSB.

Mynd með frétt: Kristín Gunnarsdóttir fráfarandi ritari UMSB, María Júlía Jónsdóttir fráfarandi sambandsstjóri UMSB, Sigríður Bjarnadóttir gjaldkeri UMSB, Rakel Guðjónsdóttir nýr meðstjórnandi UMSB, Bragi Þór Svavarsson nýr sambandsstjóri UMSB og Bjarni Þór Traustasson nýr ritari UMSB.