Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

22

95. ársþing UMSK - Valdimar Leo endurkjörinn

25.02.2019

Valdimar Leo Friðriksson var endurkjörinn formaður UMSK á 95. ársþingi sambandsins þann 21. febrúar sl. Theodór Kristjánsson sem var í varastjórn gaf ekki kost á sér áfram og Geirarð Long úr Aftureldingu var kosinn inn í staðinn. Aðrir stjórnarmenn voru endurkjörnir. Stjórn UMSK er því skipuð eftirfarandi: Valdimar Leo Friðriksson formaður, Magnús Gíslason HK, Guðmundur Sigurbergsson Breiðabliki, Lárus B. Lárusson Gróttu, Hanna Carla Jóhannsdóttir HK, Halla Garðarsdóttir Breiðabliki, Þorsteinn Þorbergsson Stjörnunni, Geirarður Long Aftureldingu. Hafsteinn Pálssson og Ingi Þór Ágústsson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ voru fulltrúar ÍSÍ á þinginu.

Á ársþinginu voru veittar viðurkenningar til íþróttafólks sem hefur náð góðum árangri á árinu. Eftirtaldir fengu viðurkenningu:

Fimleikar: Valgarð Reinhardsson, Gerpla.
Frjálsíþróttir: Sindri Hrafn Guðmundsson, Breiðablik.
Sund: Brynjólfur Óli Karlsson, Breiðablik.
Skíði: Agla Jóna Sigurðardóttir, Breiðablik.
Dans: Gylfi Már Hrafnsson og María Tinna Hauksdóttir, HK.

Íþróttakona UMSK: Agla María Albertsdóttir, Breiðablik.
Íþróttamaður UMSK: Valgarð Reinhardsson, Gerpla.
Lið ársins 2018: Meistaraflokkur Breiðabliks í knattspyrnu kvenna.

Á ársþinginu var veittur Félagsmálaskjöldur, en viðurkenninguna hlýtur sá einstaklingur sem þykir hafa skarað fram úr í félagsmálum á liðnum árum. Hilmar Júlíusson í Stjörnunni fékk skjöldinn fyrir störf sín fyrir körfuknattleiksdeild Stjörnunnar. Hilmar kom að starfi körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar 2007 sem formaður barna- og unglingaráðs til 2012. Hann tók síðan við formennsku í deildinni 2012 og hefur verið formaður síðan, með eins árs hléi 2016. Hilmar hefur verið vakinn og sofinn yfir starfi og uppgangi körfuboltans í Garðabæ. Vöxtur deildarinnar og árangur keppnisflokka hennar er eftirtektarverður. Undir hans forystu eru allir flokkar að keppa um titla, bæði karla og kvenna, og mikil fjölgun í iðkendahópum yngri aldursflokka.

Á mynd með fréttinni má sjá meistaraflokk kvenna í Breiðabliki sem kosið var lið ársins 2018 og Valdimar Leo ásamt Hilmari við afhendingu Félagsmálaskjaldarins. 

Myndir með frétt