Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

19

Afrekssjóður ÍSÍ styrkir Íshokkísamband Íslands

11.01.2019
Gengið hefur verið frá samningi Íshokkísambands Íslands og Afrekssjóðs ÍSÍ vegna styrkveitinga ársins 2019, en sambandið hlýtur styrk að upphæð 10 milljónir króna úr sjóðnum.
 
Íshokkísamband Íslands (ÍHÍ) flokkast sem B/Alþjóðlegt sérsamband samkvæmt flokkun Afrekssjóðs ÍSÍ fyrir árið 2019. Styrkveiting sjóðsins til ÍHÍ vegna verkefna ársins er 10 m.kr. en verkefni ÍHÍ árið 2018 hlutu styrk að upphæð 9,2 m.kr.
 
ÍHÍ heldur úti starfi fjögurra landsliða sem taka öll þátt í Heimsmeistaramótum á hverju ári, eru það A landslið karla og kvenna, U18 karla og U20 karla, en það lið er jafnframt gestgjafi á HM sem fram fer í Reykjavík á næstu dögum.
Auk þessa stendur sambandið fyrir landsliðsæfingum í undirbúningi verkefna og er sífellt að bæta umgjörð í kringum landsliðsstarfið. Á árinu mun A landslið karla taka þátt í undankeppni Ólympíuleika og stefnt er að því að bæði A landslið karla og kvenna fari í æfingabúðir erlendis og leiki vináttulandsleiki til að undirbúa liðin enn frekar fyrir þau verkefni sem eru framundan.
 
Það voru þau Helgi Páll Þórisson, formaður ÍHÍ og Guðrún Kristín Blöndal, varaformaður ÍHÍ sem undirrituðu samninginn fyrir hönd ÍHÍ og þau Lilja Sigurðardóttir, formaður stjórnar Afrekssjóðs ÍSÍ og Andri Stefánsson, sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ fyrir hönd Afrekssjóðs ÍSÍ.