Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

12.11.2024 - 12.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
11

Smáþjóðaleikar 2019 í Svartfjallalandi

28.11.2017

Næstu Smáþjóðaleikar fara fram í Svartfjallalandi í júní 2019. Svartfjallaland tók þátt í fyrsta sinn á Smáþjóðaleikunum árið 2011 og er nú í fyrsta sinn gestgjafi leikanna. Svartfjallaland er land í suðaustanverðri Evrópu á Balkanskaga. Landið á strönd að Adríahafi og landamæri að Króatíu í vestri, Bosníu og Hersegóvínu í norðvestri, Serbíu og Kosóvó í austri og Albaníu í suðri. Svartfjallaland var hluti Júgóslavíu mestalla 20. öldina en hafði verið sjálfstætt áður. Eftir upplausn Júgóslavíu á 10. áratug 20. aldar voru einungis Svartfjallaland og Serbía eftir í ríkjasambandi, fyrst undir nafni Júgóslavíu en síðar sem Serbía og Svartfjallaland. Svartfellingar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu þann 21. maí 2006 að rjúfa sambandið við Serba og var sjálfstæði formlega lýst yfir 3. júní sama ár.

Smáþjóðaleikarnir 2019 í Svartfjallalandi verða settir 27. maí og verður þeim slitið þann 1. júní. Keppnisgreinar á leikunum eru frjálsar íþróttir, sund, júdó, skotíþróttir, tennis, borðtennis, körfuknattleikur, boules, blak og strandblak. Allir þátttakendur á leikunum munu gista á sama hótelinu í strandbænum Budva sem liggur að Adríahafinu.

Hugmyndina um íþróttakeppni smáþjóða Evrópu má rekja aftur til ársins 1981. Það var útbreidd skoðun að íþróttakeppni þar sem smáþjóðir öttu kappi saman gæti orðið til þess að efla anda og hugsjón ólympíuhreyfingarinnar og treysta jafnframt vináttubönd þjóðanna. Þátttökurétt eiga þjóðir með íbúatölu undir einni milljón. Þessar þjóðir eru: Andorra, Ísland, Kýpur, Liechtenstein, Lúxemborg, Malta, Mónakó, San Marínó og Svartfjallaland. Smáþjóðaleikarnir fara fram á tveggja ára fresti í einu af löndunum níu. Þeir voru fyrst haldnir í San Marínó árið 1985, en síðan hafa þeir verið haldnir í Mónakó (1987), Kýpur (1989), Andorra (1991), Möltu (1993), Lúxemborg (1995), Íslandi (1997), Liechtenstein (1999), San Marínó (2001), Möltu (2003), Andorra (2005), Mónakó (2007), Kýpur (2009), Liechtenstein (2011), Lúxemborg (2013), Íslandi (2015) og San Marínó (2017). Með leikunum í San Marínó árið 2017 hófst þriðja umferð leikanna.

Íslenskir íþróttamenn hafa verið sigursælir í gegnum tíðina á Smáþjóðaleikum. Ef litið er til heildartöflu yfir verðlaun á leikunum má sjá að Íslendingar eru efstir á blaði, en Íslendingar hafa unnið til 1204 verðlauna á Smáþjóðaleikum og flestra gullverðlauna eða, 479. Kýpur á fleiri verðlaun samtals eða 1220, en efsta sæti töflunnar fer eftir fjölda gullverðlauna.

 

Myndir með frétt