Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

12.09.2024 - 12.09.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
20.09.2024 - 21.09.2024

Ársþing SKÍ 2024

Ársþing Skíðasambands Íslands verður haldið...
10.10.2024 - 10.10.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
10

Knattspyrnukonan Fjolla Shala með erindi á Sýnum karakter

29.09.2017

Í dag fer fram ráðstefnan Sýnum karakter - Allir með. Ráðstefnan er tileinkuð ungu fólki innan íþróttahreyfingarinnar og eru þátttakendur á aldrinum 13-25 ára. 

Eitt af markmiðum ráðstefnunnar er að varpa frekara ljósi á ástæður þess að þátttaka barna og ungmenna af erlendum uppruna er minni. Knattspyrnukonan Fjolla Shala, leikmaður í meistaraflokki Breiðabliks í knattspyrnu, hélt frábært erindi sem tengdist þessu. Rannsóknir hafa sýnt fram á það að alltof fá börn fólks af erlendum uppruna sem flytja hingað til lands stunda íþróttir. Fjolla telur ástæðuna þá að foreldrar barna þekki ekki frístundakortið og haldi að það sé dýrt fyrir börn að stunda íþróttir. Þau hafi mörg ekki mikið á milli handanna og því sé hætt á að börn innflytjenda stundi ekki íþróttir eða flosni snemma úr íþróttum „Það þarf að halda fyrirlestra á erlendum tungumálum um íþróttir fyrir börn,“ segir Fjolla í erindi sínu.

Fjolla er fædd í Kosovo. Þegar hún var um hálfs árs gömul flutti fjölskylda hennar til Þýskalands. Árið 1998 kom fjölskyldan svo til Íslands. Þá var Fjolla um fimm ára. Hún hóf að æfa knattspyrnu níu ára. „Pabbi var kveikjan að því að ég fór að æfa knattspyrnu. Hann hafði sjálfur verið liðtækur knattspyrnumaður og ég horfði upp til hans. Það reyndist mér mikið heillaspor. Auðvitað voru foreldrar mínir að reyna að koma undir sig fótunum í nýju landi. Það kom oft fyrir að foreldrar mínir þurftu að vinna mikið og gátu því ekki tekið jafn mikinn þátt og þau vildu. Það var því oft sem mig vantaði far á keppnisvelli eða mót. ‚,Eg er mjög þakklát mínu frábæra uppeldisfélagi, Leikni, því þjálfararnir skutluðu mér til og frá æfingum eða hjálpuðu mér að verða mér úti um far með foreldrum annarra stelpna. Þeir reyndu að sjá til þess að ég gæti stundað mína íþrótt af krafti,“ segir Fjolla og þakkar þjálfurum sínum hjá þeim liðum sem hún hefur spilað með að halda sér í íþróttum. „Til þess að ná erlendum börnum á æfingar þá finnst mér þurfa að halda fyrirlestra í skólum á mörgum tungumálum fyrir börnin og foreldrana. Það þarf að kynna fyrir foreldrum hvernig frístundakortið virkar. Það skortir upplýsingar til foreldra um hvernig starfið virkar. Einnig eru margir foreldrar innflytjendabarna oft sjálf að fóta sig í samfélaginu og því ekki með mikið milli handanna. Því er hugsanlegt að foreldrar sjái sér ekki fært að leyfa barninu að æfa íþróttir. Þar spila upplýsingar um frístundakortið stóran sess,“ segir hún og hélt áfram að erlendir foreldrar eigi oft ekki bíl og kunni ekki á strætó. Þeir viti ekki hvar íþróttavellir eru og hvar aðstaðan er. „Börnin missa því oft af æfingum og keppni og þá flosna börnin upp úr íþróttum. Samfélagið verður að hjálpa börnum að komast á æfingar og keppni, aðstoða foreldra nýbúa barna að komast inn í íþróttastarfið og mynda tengsl inn í félagið.“


Sýnum karakter er samstarfsverkefni  Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og Ungmennafélags Íslands (UMFÍ). Um ár er síðan ÍSÍ og UMFÍ ýttu verkefninu úr vör. Sýnum karakter fjallar um þjálfun sálrænnar og félagslegrar færni barna og ungmenna í íþróttum. Hugmyndafræði verkefnisins byggir á að hægt sé að þjálfa og styrkja sálræna og félagslega færni iðkenda eins og líkamlega færni. 

Á meðal annarra sem fluttu erindi á ráðstefnunni voru Gunnar Gunnarsson, formaður UÍA, Hafrún Kristjánsdóttir, sviðsstjóri í HR, dómarinn Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, Vanda Sigurgeirsdóttir og körfuboltaþjálfarinn Pálmar Ragnarsson.

UMFÍ í samstarfi við ÍSÍ og KSÍ vinna nú að verkefni sem hefur það markmið að auka þátttöku barna og ungmenna af erlendum uppruna í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi. Þátttaka í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi getur verið jákvæð leið til þess að aðlagast íslensku samfélagi og til þess að rjúfa félagslega einangrun fólks. Verkefnið felur í sér að útbúa upplýsingar, bæði á rafrænu og útprentuðu formi, fyrir foreldra barna og ungmenna af erlendum uppruna með upplýsingum um íþróttahreyfinguna. Stefnt er að því að efnið verði tilbúið til dreifingar eftir áramótin 2017.

Vefsíða Sýnum karakter er synumkarakter.is og verkefnið er einnig með facebook-síðu undir nafninu Sýnum karakter.

Myndir frá ráðstefnunni má sjá á myndasíðu ÍSÍ hér.

Myndir með frétt