Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

12.09.2024 - 12.09.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
20.09.2024 - 21.09.2024

Ársþing SKÍ 2024

Ársþing Skíðasambands Íslands verður haldið...
10.10.2024 - 10.10.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
10

Heimsókn forseta ÍSÍ til HSH

28.09.2017

Forseti ÍSÍ, Lárus L. Blöndal, og föruneyti heimsóttu starfssvæði Héraðssambands Snæfellsness og Hnappadalssýslu 26. september sl. Heimsóknin hófst í Laugargerðisskóla þar sem Harpa Jónsdóttir formaður Íþróttafélags Miklaholtshrepps og Sigurður Jónsson kennari í Laugargerðisskóla tóku á móti hópnum. Mannvirkin á staðnum voru skoðuð en þar er íþróttahús og einnig sundlaug.  Þaðan var ekið á Hellissand þar sem Þorsteinn Haukur Harðarson framkvæmdastjóri Víkings/Reynis tók á móti hópnum. Mannvirki á Hellissandi voru skoðuð og í kjölfarið mannvirkin í Ólafsvík. Þar hefur helsta uppbyggingin verið við íþróttahús og Ólafsvíkurvöll en karlalið Víkings/Reynis hefur leikið í Pepsi deildinni í knattspyrnu undanfarin ár. Í Grundarfirði var fundað á Kaffi Emil með fulltrúum HSH, aðildarfélaga þess og oddvita sveitarfélagsins. Á fundinum afhenti Lárus L. Blöndal nýráðnum framkvæmdastjóra HSH, Laufeyju Helgu Árnadóttur, fána ÍSÍ fyrir skrifstofu sambandsins. Var fundarsetan fyrsta embættisverk Laufeyjar Helgu sem framkvæmdastjóra HSH. Eftir góðan fund og skoðun íþróttamannvirkja á Grundarfirði sem Garðar Svansson frá HSH, Ragnar Smári Guðmundsson formaður Umf. Grundarfjarðar og Eyþór Garðarsson oddviti í Grundarfjarðarbæ leiddu, var ekið til Stykkishólms þar sem Kristinn Hjörleifsson formaður HSH og Umf. Snæfells og Arnar Hreiðarsson forstöðumaður íþróttamannvirkja í Snæfellsbæ tóku á móti hópnum. Í Stykkishólmi var íþróttahús og sundlaug skoðuð, knattspyrnu- og frjálsíþróttaaðstaðan, aðstaðan fyrir hestaíþróttir og golfvöllurinn.

Víða á starfssvæði HSH er öflugt íþróttastarf og kraftur í fólkinu sem leiðir starf aðildarfélaganna. Hópurinn frá ÍSÍ þakkar öllum sem komu að heimsókninni á einn eða annan hátt kærlega fyrir góða viðkynningu og veitta aðstoð. Fleiri myndir frá ferðinni er hægt að finna á myndasíðu ÍSÍ hér á heimasíðunni eða með því að smella hér.

Með Lárusi í för voru Sigríður Jónsdóttir varaforseti ÍSÍ, Hafsteinn Pálsson ritari ÍSÍ, Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri og Halla Kjartansdóttir skrifstofustjóri.

 

Myndir með frétt