Lokahluti skýrslu WADA kominn út
Þann 9. desember kom út lokahluti McLaren-skýrslunnar um lyfjamisnotkun íþróttafólks í Rússlandi, en Richard McLaren höfundur skýrslunnar var ráðinn af Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnuninni (WADA) til verksins. Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunin gaf út yfirlýsingu samdægurs þar sem hún staðfestir niðurstöðu McLaren. Fyrri hluti skýrslunnar kom út í júlí sl. Í nýju skýrslunni segir að yfir 1.000 Rússar hafi með aðstoð ríkisins nýtt sér efni á bannlista WADA til að auka árangur sinn í íþróttum á árunum 2011-2015. Ljóst er að íþróttafólkið notaði bönnuð efni samkvæmt ríkisstyrktri áætlun. Fjórir verðlaunahafar frá Vetrarólympíuleikunum í Sochi 2014 og fimm verðlaunahafar frá Ólympíuleikunum í London 2012 eru þeirra á meðal.
McLaren segir í skýrslunni að um sé að ræða lyfjamisnotkun af stærðargráðu sem ekki áður hefur þekkst. Ljóst er að um eins konar stofnun hafi verið að ræða, sem vann að því að búa til verðlaunahafa, og mikið var lagt upp úr því að halda öllu leyndu. Í skýrslunni kemur einnig fram að síðan hneykslið kom upp hafi lyfjaeftirliti Rússa verið breytt og að þeir séu að reyna að bregðast við með auknu eftirliti.