Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

29

Nám Alþjóðaólympíunefndarinnar á netinu

28.11.2016

Eftir íþróttaferilinn stendur mikið af íþróttafólki á tímamótum. Samkvæmt Aðgerðaráætlun Alþjóðaólympíunefndarinnar 2020 (Olympic Agenda 2020) er eitt aðalmarkmið nefndarinnar að efla stuðning við íþróttafólk innan og utan íþrótta og auka möguleika þeirra á atvinnuferli eftir íþróttaferilinn. 

Á síðasta ári, þann 28. maí, brást Alþjóðaólympíunefndin við eftirspurn íþróttafólks eftir náms- og atvinnutækifærum með því að opna vefsíðu sem kallast „Lærdómsgátt íþróttamannsins“ (Athlete Learning Gateway) og ætluð er Ólympíuförum, afreksíþróttafólki og þjálfurum þeirra. Vefsíðan býður upp á fjöldan allan af námskeiðum, en markmiðið er að aðstoða íþróttafólk við að móta framtíð sína, t.d. að ná draumastarfinu sínu með góðum undirbúningi og bæta frammistöðu sína á vinnumarkaði. Það eina sem þarf að gera til þess að geta setið námskeið er að skrá sig inn. Á vefsíðunni eru nú 13 þúsund skráðir notendur frá 194 löndum.

Nýjasta námskeiðið á síðunni kallast „Breyting á ferli íþróttamannsins – undirbúningur fyrir framtíðina“ (Career Transition - Preparing for future success). Þetta er 20. námskeiðið sem í boði er á vefsíðunni. Á námskeiðinu fá nemendurnir innsýn í reynslu Ólympíufara og ráðleggingar frá hinum ýmsu sérfræðingum ásamt aðstoð við undirbúning á ferilskrá, æfingu í viðtalstækni og ráðleggingar um tímastjórnun.

Á nýju svæði sem kallast „Samfélag“ fær íþróttafólk einnig tækifæri á því að hafa samskipti hvert við annað með því að deila reynslu, upplýsingum og innsýn. Mikið af Ólympíuförum, t.d. Michael Johnson spretthlaupari, Kirsty Coventry sundkona, Lawrence Ndlovu ræðari og Angela Ruggiero íshokkí leikmaður auk þjálfara, íþróttastofnana, íþróttaleiðtoga og leiðandi fræðimanna, hafa lagt til einstakt efni á síðuna.

Hér má sjá yfirlit yfir öll 20 námskeiðin sem í boði eru á vefsíðunni.