Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

29

Guðjón Ingi sæmdur Gullmerki ÍSÍ

15.04.2016

Ársþing Skylmingasambands Íslands var haldið í Íþróttamiðstöðinni í Laugardal 13. apríl síðastliðinn.  Formaður sambandsins, Guðjón Ingi Gestsson,setti þingið og bauð þingfulltrúa velkomna en alls sóttu þingið 16 fulltrúar frá þremur aðildarfélögum. Hann flutti síðan skýrslu stjórnar og minnti á að tíu ár eru liðin frá stofnun sambandsins. Framkvæmdastjóri sambandsins, Nikolay Ivanov Mateev flutti endurskoðaða reikninga sambandsins en rekstrarniðurstaða sambandsins hefur verið jákvæð undanfarin ár.  Móta- og keppendareglur sambandsins voru kynntar og fjallað var um endurskoðaða afreksstefnu þess fyrir tímabilið 2016 – 2020. Í þeirri umfjöllun kom fram að í einstaklingsgreinum á Ólympíuleikum eru aðeins sex sæti af 36 frátekin fyrir Evrópu, sem endurspeglar hve erfitt er fyrir skylmingafólk að öðlast keppnisrétt á leikunum.Guðjón Ingi gaf ekki kost á sér til endurkjörs sem formaður og var Nikolay Ivanov Mateev kjörinn formaður til næstu tveggja ára. Aðrir í stjórn voru kosin:  Anna Karlsdóttir, Kristmundur H. Bergsveinsson, Margrét Sverrisdóttir og Ólafur Bjarnason.  Í varastjórn voru kosin Guðjón Ingi Gestsson og Ingibjörg Laufey Guðlaugsdóttir. Fulltrúi ÍSÍ á þinginu var Sigríður Jónsdóttir ritari framkvæmdastjórnar ÍSÍ en hún var jafnframt þingforseti.

Guðjón Ingi var sæmdur Gullmerki ÍSÍ á þinginu fyrir góð störf í þágu skylmingaríþróttarinnar. Það var Sigríður Jónsdóttir sem afhenti Guðjóni Inga merkið.  Hann hlaut einnig Gullmerki Skylmingasambandsins fyrir sín störf og er hann fyrsti gullmerkishafi sambandsins. Á meðfylgjandi mynd eru Nikolay I. Mateev nýkjörinn formaður SKY, Sigríður Jónsdóttir ÍSÍ og Guðjón Ingi Gestsson fráfarandi formaður SKY.