Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

29

Nýjung í þingstörfum á þingi UÍA

14.04.2016

Ársþing Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands var haldið í Miklagarði á Vopnafirði 9. apríl síðastliðinn. Karlakór Vopnafjarðar söng við setningu þingsins sem 43 þingfulltrúar frá félögum af UÍA svæðinu sóttu. Þingið einkenndist af virkri þátttöku þingfulltrúa og líflegum umræðum en í stað hefðbundins nefndafyrirkomulags þá var umræðuvettvangur (World Café) nýttur til að skapa hugarflæði og gefa þingfulltrúum frekari kost á að koma hugmyndum sínum á framfæri. Fimm umræðuborð voru sett upp þar sem rædd voru mismunandi málefni, svo sem verkefni og störf UÍA, sjálfboðaliðar og þátttaka, Unglingalandsmót á Egilsstöðum 2017, samskipti á landsvísu og fjármál. Allir þingfulltrúar fóru á milli allra umræðuborðanna fimm og lögðu sitt af mörkum til málaflokkanna. Var almenn ánægja með þetta fyrirkomulag. Gunnar Gunnarsson var endurkjörinn formaður sambandsins og með honum í stjórn eru Elsa Guðný Björgvinsdóttir, Reynir Zoega, Auður Vala Gunnarsdóttir og Jósef Auðunn Friðriksson. Í varastjórn eru Hlöðver Hlöðversson, Auður Ágústsdóttir og Rebekka Karlsdóttir.  
Veittar voru heiðursviðurkenningar til nokkurra einstaklinga og tilkynnt var um val á Íþróttamanni UÍA 2015. Það var Eva Dögg Jóhannsdóttir glímukona hjá Umf. Val á Reyðarfirði sem hreppti titilinn, þriðja árið í röð. Eva Dögg náði afar góðum árangri á síðasta ári, sigraði m.a. Íslandsglímuna og hlaut Freyjumenið, fyrsta austfirskra kvenna. Auk þess hreppti hún Rósina, verðlaun fyrir fallegustu glímurnar, svo fátt eitt sé nefnt.
Nánari umfjöllun um þing UÍA og heiðursveitingar má finna á heimasíðu sambandsins, www.uia.is.
Fulltrúi ÍSÍ á þinginu var Hafsteinn Pálsson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ.