Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

12

Nýtt Lífshlaupsár hafið!

03.02.2016

Setning Lífshlaupsins fór fram í morgun í Íþróttahúsi Seltjarnarness. Það var Grunnskóli Seltjarnarness sem fékk að hefja formlega Lífshlaupið að þessu sinni. Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ setti verkefnið formlega og Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra, Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri á Seltjarnarnesi og Ólína E. Thoroddsen skólastjóri Grunnaskóla Seltjarnarness ávörpuðu gesti og nemendur. Fjórar stúlkur úr Grunnskóla Seltjarnarness fluttu fallegt tónlistaratriði og fjórir ötulir þátttakendur í einstaklingskeppni Lífshlaupsins fengu afhent Platínumerki Lífshlaupsins. Að því loknu var liðakeppni í skólahreystibraut á milli liða forseta ÍSÍ, mennta- og menningarmálaráðherra, bæjarstjórans og skólastjórans. Andrés Guðmundsson stjórnaði keppninni, eins og honum einum er lagið. Öll liðin fengu dygga aðstoð frá Skólahreystikeppendum skólans og svo fór að lið Illuga vann keppnina sem var jöfn og spennandi. Í lokin sameinuðust nemendur og gestir í fjörugu dansatriði á gólfi íþróttasalarins. 

ÍSÍ þakkar nemendum og starfsfólki Grunnskóla Seltjarnarness kærlega fyrir móttökurnar. Skráning í verkefnið er í fullum gangi á www.lifshlaupid.is og hvetjum við alla til að skrá sig til leiks.  

Myndir með frétt